Krókurinn vill titil

Baldur Þór Ragnarsson fagnar með stuðningsmönnum Tindastóls.
Baldur Þór Ragnarsson fagnar með stuðningsmönnum Tindastóls. Ljósmynd/Jóhann Helgi Sigmarsson

„Ég er stoltur af liðinu en á sama tíma vill maður alltaf meira. Svona er körfuboltinn og þetta var skemmtilegt,“ sagði Baldur Þór Ragnarsson, þjálfari ársins í Subway-deild karla í körfubolta, í samtali við mbl.is.

Baldur var kjörinn þjálfari ársins af fyrirliðum, forráðamönnum og þjálfurum efstu deildarinnar en hann stýrði Tindastóli alla leið í úrslitaeinvígi um Íslandsmeistaratitilinn. Þar tapaði liðið að lokum í oddaleik gegn Val.

„Fólk er stolt af árangrinum og þetta er besti árangur sem Tindastóll hefur náð í úrslitakeppninni en aftur á móti þá vill Krókurinn titil,“ sagði Baldur.

Hann hefur einu sinni áður hlotið nafnbótina og er stoltur af viðurkenningunni. „Ég er stoltur af því. Þetta er ekki stóra málið í þessu en ég er stoltur af því að vera heiðraður því það eru margir frábærir þjálfarar í deildinni og það er gaman að fólk horfi til mín í þessu vali.“

Óvíst er hvað tekur við hjá Baldri en hann er samningslaus hjá Tindastóli. „Ég er samningslaus eins og er og þangað til eitthvað er skrifað niður þá er þetta eins og sú staða er. Það er spennandi möguleiki að vera áfram hjá Tindastóli en við sjáum til,“ sagði Baldur.

mbl.is