Fer í þriðju aðgerðina á 14 mánuðum

Lonzo Ball í leik með Chicago Bulls.
Lonzo Ball í leik með Chicago Bulls. Ljósmynd/NBA

Bakvörðurinn Lonzo Ball, leikmaður Chicago Bulls í NBA-deildinni í körfuknattleik, mun gangast undir þriðju skurðaðgerð sína á vinstra hné á rúmu ári.

Ball, sem er 25 ára gamall, hefur ekki spilað fyrir Chicago síðan í janúar á síðasta ári vegna hnémeiðslanna og verður frá enn um sinn.

ESPN greinir frá því að áhyggjur séu uppi um að meiðsli Balls séu það alvarleg að ferillinn sé í hættu. Því hafi Chicago brugðið á það ráð að láta hann leggjast undir hnífinn í þriðja sinn á 14 mánuðum þar sem Ball mun meðal annars fá ígræðslu á brjóski í vinstra hnénu.

Útlit er fyrir að hann missi af öllu næsta tímabili í NBA-deildinni vegna þriðju aðgerðarinnar.

mbl.is