Litháinn fór á kostum í sigri

Domantas Sabonis lék frábærlega í nótt.
Domantas Sabonis lék frábærlega í nótt. AFP/Sarah Stier

Domantas Sabonis var hársbreidd frá því að ná þrefaldri tvennu er hann leiddi lið sitt Sacramento Kings til sigurs, 132:118, gegn Washington Wizards í NBA-deildinni í körfuknattleik í nótt.

Litháinn öflugi skoraði 30 stig, tók níu fráköst og gaf tíu stoðsendingar.

Kyle Kuzma var hins vegar stigahæstur í leiknum með 33 stig og sjö fráköst.

Utah Jazz vann Boston Celtics nokkuð óvænt, 118:117, þar sem Finninn Lauri Markkanen átti enn einn stórleik sinn á tímabilinu.

Markkanen var með tvöfalda tvennu er hann skoraði 28 stig og tók tíu fráköst.

Jaylen Brown fór fyrir Boston er hann skoraði 25 stig og gaf sex stoðsendingar.

Loks heldur Kamerúninn Joel Embiid áfram að gera tilkall til þess að vera valinn mikilvægasti leikmaður NBA-deildarinnar.

Embiid skoraði 31 stig, tók sjö fráköst og gaf sjö stoðsendingar í 141:121-sigri Philadelphia 76ers á Indiana Pacers.

Tyrese Maxey lék sömuleiðis frábærlega fyrir Philadelphia er hann skoraði 31 stig og gaf sjö stoðsendingar.

Öll úrslit næturinnar:

Washington – Sacramento 118:132

Utah – Boston 118:117

Indiana – Philadelphia 121:141

Memphis – Golden State 133:119

Chicago – Miami 133:99

Toronto – Minnesota 122:107

mbl.is