Valsmenn sterkari í fyrsta leik

Kristinn Pálsson fagnar körfu í kvöld.
Kristinn Pálsson fagnar körfu í kvöld. Kristinn Magnússon

Valsmenn eru komnir í 1:0 í úrslitaeinvígi sínu við Grindavík á Íslandsmóti karla í körfubolta eftir heimasigur í fyrsta leik á Hlíðarenda í kvöld, 89:79. Þrjá sigra þarf til að verða Íslandsmeistari. Annar leikurinn fer fram á mánudagskvöld í Smáranum.

Mikið jafnræði var með liðunum allan fyrri hálfleikinn en Grindavík rétt á undan nánast allan tímann. Grindavík náði mest fimm stiga forskoti í fyrri hálfleiknum í stöðunni 26:21. Valur náði með þriggja stiga forskoti í fyrri hálfleiknum í stöðunni 19:16.

Grindavík var þremur stigum yfir, 37:34, þegar Justas Tamulis skoraði þriggja stiga körfu og jafnaði í 37:37 sem voru hálfleikstölur.

DeAndre Kane skoraði 18 stig fyrir Grindavík í fyrri hálfleiknum. Kristófer Acox skoraði 13 fyrir Val.

Valur byrjaði seinni hálfleikinn af krafti og komst fimm stigum yfir í upphafi hálfleiksins, 45:40. Kristinn Pálsson skoraði síðan tvær þriggja stiga körfur með stuttu millibili og kom Val tíu stigum yfir, 56:46.

Valsmenn héldu áfram að bæta í forskotið og Frank Aron Booker skoraði fimm stig í röð og breytti stöðunni í 66:51. Grindavík lagaði stöðuna aðeins fyrir fjórða og síðasta leikhlutann því staðan fyrir hann var 69:58.

Kári Jónsson skoraði fyrstu stig fjórða leikhlutans með glæsilegri þriggja stiga körfu og jók muninn í 14 stig í leiðinni, 72:58. Valsmenn héldu forskotinu á svipuðum stað næstu mínútur og var staðan 77:64 þegar fjórði leikhlutinn var tæplega hálfnaður.

Þá tók við góður kafli hjá Grindavík því átta stigum munaði þegar tvær og hálf mínúta var eftir, 81:73. Nær komust gestirnir hins vegar ekki.

Valur 89:79 Grindavík opna loka
99. mín. skorar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert