Náði í tvö gull og setti heimsmet

Zhang Yufei með gullverðlaunin í 200 metra flugsundinu.
Zhang Yufei með gullverðlaunin í 200 metra flugsundinu. AFP

Kínverska sundkonan Zhang Yufei vann til tveggja gullverðlauna í sundkeppninni á Ólympíuleikunum í Tókýó í morgun.

Yufei sigraði í 200 metra flugsundi kvenna þar sem hún skákaði bandarísku stúlkunum Regan Smith og Hali Flickinger sem fengu silfur og brons. Yufei setti ólympíumet, synti á 2:03,86 mínútum.

Hún var síðan í sveit Kínverja sem setti heimsmet þegar hún sigraði í 4x200 metra skriðsundi kvenna 7:40,33 mínútum. Yang Junxuan, Tang Muhan og Li Bingjie skipuðu sveitina með henni.

Kínverska boðsundssveitin sem setti hemsmet í 4x200 m skriðsundi.
Kínverska boðsundssveitin sem setti hemsmet í 4x200 m skriðsundi. AFP

Katie Ledecky tryggði sveit Bandaríkjanna silfrið í boðsundinu með frábærum lokaspretti og skildi sveit Ástrala, með hina sigursælu Ariarne Titmus innanborðs, eftir í þriðja sætinu. Titmus bætti því bronsi við tvenn gullverðlaun sín á leikunum.

Caeleb Dressel fagnar sigrinum í 100 metra skriðsundi.
Caeleb Dressel fagnar sigrinum í 100 metra skriðsundi. AFP

Caeleb Dressel frá Bandaríkjunum setti ólympíumet þegar hann sigraði í 100 metra skriðsundi karla, synti á 47,02 sekúndum. Kyle Chalmers frá Ástralíu fékk silfrið og Kliment Kolesnikov frá Rússlandi bronsið.

Izaac Stubblety-Cook frá Ástralíu vann 200 metra bringusundið.
Izaac Stubblety-Cook frá Ástralíu vann 200 metra bringusundið. AFP

Izaac Stubblety-Cook frá Ástralíu sigraði og setti ólympíumet í 200 metra bringusundi karla en hann synti á 2:06,38 mínútum. Arno Kamminga frá Hollandi varð annar og Matti Mattsson frá Finnlandi þriðji. Anton Sveinn McKee varð í 24. sæti í greininni.

Robert Finke varð fyrsti ólympíumeistarinn í 800 m skriðsundi.
Robert Finke varð fyrsti ólympíumeistarinn í 800 m skriðsundi. AFP

Robert Finke frá Bandaríkjunum sigraði í 800 m skriðsundi karla á 7:41,87 mínútum eftir gífurlega jafna keppni þar sem Gregorio Paltrinieri frá Ítalíu fékk silfrið og Mykhailo Romanchuk frá Úkraínu bronsið. Keppt var í greininni í fyrsta skipti á Ólympíuleikum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert