Barátta milli tíu keppenda í kvöld

Sandra Arnardóttir sigraði á Reykjavíkurleikunum 2020.
Sandra Arnardóttir sigraði á Reykjavíkurleikunum 2020.

Búist er við spennandi keppni í crossfit í kvöld þar sem tíu karlar og konur keppa hvert á móti hvert öðru í þremur keppnisgreinum á Reykjavíkurleikunum. 

Ísland er þekkt fyrir að eiga keppnisfólk í fremstu röð í heiminum í crossfit og hafa nokkrir af þeim sem eru að keppa í kvöld keppt á heimsleikunum í crossfit, þannig að föstudagskvöldið lofar góðu.

Mótið hefst með þrískiptri æfingu. Fyrsta grein skiptist í a-, b- og c-hluta. Fyrsti hlutinn byrjar á 500 metra hlaupi og hafa keppendur þrjár mínútur til að klára það svo að þetta verður sprettur, eftir einnar mínútu pásu fara keppendur beint í „Isabel“-æfinguna, sem er þrjátíu stykki af ólympísku lyftunni snörun og þar munu konur lyfta 30 sinnum 40 kg stöng og karlarnir þrjátíu sinnum 60 kg stöng. Margar erfiðar æfingar í crossfit eru nefndar eftir stelpum og eru mjög erfiðar, Isabel er einmitt ein af þessum æfingum. 

Þriðji hlutinn af fyrstu greininni er þrjátíu og ein armbeygja yfir kassa þannig að fyrsta verkefni kvöldsins á eftir að reyna vel á keppendurna. 

Frederik Aegidius sem keppt hefur fimm sinnum á heimsleikunum í Crossfit segist spenntur fyrir fyrstu greininni og sérstaklega þriðja hluta hans. „Þetta er hrein og klár vinna. Stór hluti þess að ganga vel í þessu er hversu fljótur þú ert að jafna þig eftir hin verkefnin með svona stutta hvíld á milli. Það á eftir að borga sig að vera í góðu formi.“

Önnur keppnisgreinin er níu mínútur af klassískum crossfithreyfingum eins og handstöðugöngu, framstigsgöngu, sleða og svo kryddað aðeins með hinu miskunnarlausa „assault-hjóli“.

Lokagreinin virðist vera í mestu uppáhaldi hjá keppendum en Hafsteinn Gunnlaugsson segir: „Lokagreinin er mest þetta klassíska crossfit og það þarf góðan styrk og úthald í öxlum til að ganga vel í því. Fyrir þetta er búið að ganga ansi mikið á axlastyrkinn hjá keppendum svo þetta snýst líka um hversu fljótur þú ert að jafna þig eftir hina tvær greinarnar.“

Jóhanna Júlía er einnig spenntust fyrir síðustu æfingunni. Hún sagði: „Síðasta æfingin er í lengri kantinum en hinar tvær eru sko ekkert síðri og erfitt að velja á milli. Þetta eru allt æfingar sem maður kann og veit að maður getur gert hratt, það er bara spurning um hversu hratt maður nær að fara án þess að springa. Er með gott plan og reyni að fylgja því alveg í gegn, keyra bara á þetta.“

Mótið fer fram í Crossfit Reykjavík og verður í beinni á RÚV2, útsending hefst klukkan 19:30, einnig verður hægt að fylgjast með á instagramsíðu Crossfit Reykjavík @crossfitreykjavik

Hér má sjá æfingarnar sem íþróttamennirnir gera. 

Keppnisgrein 1 RIG 2021
Keppnisgrein 1 RIG 2021
Keppnisgrein 2 RIG 2021
Keppnisgrein 2 RIG 2021
Keppnisgrein 3 RIG 2021
Keppnisgrein 3 RIG 2021
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert