„Ég er alls ekkert fúll“

Brynjar Logi á pallinum sem var til eilífra vandræða í …
Brynjar Logi á pallinum sem var til eilífra vandræða í morgun og olli töfum sem höfðu áhrif yfir í næstu keppnisgrein, kraftlyftingar. Ljósmynd/Erna Héðinsdóttir

„Upphitunin gekk vel og ég byrjaði í 125 kg í snörun,“ segir Brynjar Logi Halldórsson lyftingamaður í samtali við mbl.is en hann hafnaði í þriðja sæti af tíu karlkyns keppendum í liðakeppni í ólympískum lyftingum á Reykjavíkurleikunum í dag þar sem Norðmenn fóru með sigur af hólmi en íslenska liðið tók silfrið meðal fimm keppnisþjóða.

Dagurinn hjá keppendum í ólympískum einkenndist af ýmsu veseni, forföll urðu í kvenhelmingi íslenska liðsins með þeim afleiðingum að Úlfhildur Unnarsdóttir og Birta Líf Þórarinsdóttir hlupu í skarðið með skömmum fyrirvara eins og greint er frá í viðtali við Úlfhildi sem hlekkjað er í hér að ofan.

Það sama var uppi á teningnum hjá körlunum, Brynjar sjálfur var fenginn til keppni með skömmum fyrirvara vegna forfalla auk þess sem galli reyndist á lyftingapallinum sem þurfti að laga með þeim afleiðingum að nokkrar tafir urðu á mótinu sem svo skilaði sér yfir í töf á að hefja leika í keppni í kraftlyftingum sem tóku við af ólympískum.

Tafir og ný upphitun

„Þegar ég sleppi stönginni skoppar hún eitthvað undarlega á pallinum og skoppar á ökklann á mér,“ segir Brynjar sem fékk skeinu á ökklann án þess að það háði honum við lyftur hans. Undir pallinum reyndust hins vegar holrúm þar sem slík áttu ekki að vera sem leiddi til þess að stöng, sem sleppt var niður á pallinn, endurkastaðist af honum með ófyrirsjáanlegum hætti sem talið var háskalegt. Var því farið í að bæta úr þessu.

„Ég fór þá aftur á bak við og hitaði aftur upp fyrir aðra lyftuna mína sem flaug upp,“ segir Brynjar sem þá snaraði 130 kg og svo 135 í þriðju og síðustu lyftu en hann lyfti 137 kg á síðasta Norðurlandameistaramóti.

Eftir snörun varð heilmikil töf á meðan dyttað var að pallinum á nýjan leik. „Svo þegar við loksins fórum í clean and jerk-ið [jafnhendingu] byrjaði ég í 150 bara til að vera öruggur með að ná lyftu og það var frekar létt. Svo þegar ég var búinn að ná þessari fyrstu lyftu og gera það sem ég þurfti að gera ákvað ég að vera svolítið gráðugur og reyna við 161 kg,“ segir Brynjar frá.

Norski bergrisinn Tollefsen

Reyndi hann þá við 161 kg sem hefði orðið Íslandsmet en fyrri hluti lyftunnar hlaut ekki náð fyrir augum dómara og þegar kom að þeirri síðari, aftur 161 kg, var þreytan tekin að segja til sín og vantaði bara herslumuninn upp á að síðari hluti lyftunnar færi í mark. „Það tók aðeins úr manni að þurfa að hita upp tvisvar í snatch-inu [snöruninni],“ segir Brynjar.

Hann gengur sáttur frá móti, sjálfur í þriðja sæti af tíu og íslenska liðið í öðru sæti af fimm. „Þetta eru 285 kg í samanlögðu sem er ágætisárangur, ég er alls ekkert fúll,“ segir lyftingamaðurinn og bætir því við aðspurður að keppinautarnir í norska liðinu, þeir Kim Erik Tollefsen og Daniel Rønnes, hafi verið mjög ólíkir.

Íslenska liðið svartklætt lengst til vinstri, Úlfhildur Unnarsdóttir, Alex Daði …
Íslenska liðið svartklætt lengst til vinstri, Úlfhildur Unnarsdóttir, Alex Daði Reynisson, Birta Líf Þórarinsdóttir og Brynjar Logi. Fyrir miðju er Norðmaðurinn hrikalegi Kim Erik Tollefsen sem skilaði liði sínu gulli þrátt fyrir að fá aðeins fyrstu og síðustu lyftu sína gilda. Ljósmynd/Helga Hlín Hákonardóttir

„Annar er mjög léttur en samt mjög sterkur miðað við þyngd og nær þannig inn mörgum stigum,“ segir Brynjar og á við Rønnes. „Hinn er mjög þungur og búinn að vera að lyfta lengi, hrikalega sterkur. Honum gekk ekkert of vel, en þó nógu vel til að vinna. Hann náði bara fyrstu og síðustu lyftunni sinni af öllum sex,“ segir Brynjar en Tollefsen lyfti 145 kg í fyrstu snörunarlyftu og 186 í síðustu jafnhendingu, samtals 331 kg og norska liðið þar með sigurvegarar. Varð Tollefsen í öðru sæti af körlunum tíu en í fyrsta sæti þar var Finninn Jesse Nykänen sem lyfti samanlagt 315 kg en varð stigahærri en Tollefsen þar sem hann er léttari.

Fram undan hjá Brynjari eru æfingar fyrir Evrópumeistaramótið í sumar sem átti að vera hans næsta mót en hann hljóp undir bagga í dag. „Það bráðvantaði einhvern til að keppa fyrir Íslands hönd þannig að ég tók það bara á mig,“ segir Brynjar Logi Halldórsson að lokum.

mbl.is