Ísland kynnt fyrir erlendum blaðamönnum

Ferðaþjónustufyrirtækið Thomas Cook mun halda blaðamannafund fyrir þýska og austurríska blaðamenn hér á landi í maímánuði á næsta ári.

Thomas Cook er eitt stærsta ferðaþjónustufyrirtæki í heimi og hefur verið starfrækt í yfir 160 ár. Fyrirtækið efnir til kynningar fyrir blaðamenn á hverju ári en þetta verður í fyrsta skipti sem það gerist á Íslandi.

Þýska ferðaskrifstofan Troll Tours, sem Thomas Cook-samsteypan á 30% hlut í, og Katla DMI, samstarfsaðili Thomas Cook og Troll Tours hér á landi, taka þátt í undirbúningi blaðamannafundarins og skipulagningu hans en blaðamennirnir verða hér á landi í þrjá daga af þessu tilefni. Gert er ráð fyrir að um 60 blaðamenn muni sækja fundinn.

Michael Ricken, stofnandi og meirihlutaeigandi Troll Tours, var hér á landi fyrir skömmu í tilefni af blaðamannafundinum. Hann sagði í samtali við Morgunblaðið að markmiðið með fundinum væri að kynna Ísland og norðlægar slóðir fyrir þeim þýsku og austurrísku blaðamönnum sem koma munu hingað til lands.

"Fundurinn mun hafa mikla þýðingu fyrir Troll Tours og Kötlu DMI og einnig fyrir ferðaþjónustuna á Íslandi almennt," segir Ricken. "Næsta víst er að landið muni fá góða kynningu í þýskum og austurrískum fjölmiðlum í framhaldinu."

Meira en náttúra

Troll Tours einbeita sér að skipulagningu ferða til Norðurlandanna. Ricken stofnaði fyrirtæki á árinu 1989 og voru fyrstu ferðirnar á vegum fyrirtækisins til Noregs. Fyrirtækið hóf að skipuleggja og selja ferðir til Íslands á árinu 1998.

"Umsvifin í ferðum okkar til Íslands hafa aukist mikið en síðastliðið sumar komu um 50% fleiri ferðamenn á okkar vegum hingað til lands en árið áður, eða um 13 þúsund manns. Áætlanir okkar fyrir næsta sumar gera ráð fyrir að fjöldinn verði um 19 þúsund. Bókanir í þessar ferðir eru nú þegar orðnar góðar."

Hann segir að stórkostleg náttúra Íslands sé meðal þess sem dragi ferðamenn hingað til lands. Fleira komi þó til, því náttúran sé einnig stórkostleg víða annars staðar, eins og til að mynda í Noregi. Dregið hafi hins vegar úr ferðamannastraumnum þangað. Ástæðan fyrir því að þróunin hafi verið önnur hér á landi en í Noregi sé m.a. sú að ferðamennirnir sem hafi heimsótt Noreg hafi að jafnaði verið eldri en þeir sem komi til Íslands. Eldra fólk í Þýskalandi hafi dregið úr ferðum sínum af ýmsum ástæðum. Ísland sé hins vegar inni hjá yngra fólki, sem ekki hafi dregið úr ferðalögum sínum, nema síður sé. Það sem helst hái enn meiri ferðamannastraumi til Íslands sé flugið. Tilfinnanlega sé þörf á örari flugferðum til Íslands til að anna þeim markaði sem sé til staðar á meginlandi Evrópu. Þess vegna muni Troll Tours bæta við stöðum sem flogið verði frá á næsta ári. Til viðbótar við Berlín, München, Frankfurt og Düsseldorf verði næsta sumar einnig flogið frá Hamborg og Vín í Austurríki.

Margháttaðar kynningar

Bjarnheiður Hallsdóttir, sem er annar eigandi og framkvæmdastjóri Kötlu DMI, segir að á blaðamannafundinum næsta vor verði tekin fyrir hin margvíslegu málefni er varða Ísland. Blaðamennirnir muni geta valið viðfangsefni eftir áhugasviðum hvers og eins, svo sem stjórnmál, viðskipti, bókmenntir, vetni og fleira. Þá verði einnig boðið upp á heimsóknir og kynnisferðir í tengslum við þessi efni.

"Það hefur margsýnt sig að ráðstefnur um ferðaþjónustu þurfa alls ekki að snúast eingöngu um það tiltekna málefni. Hin ýmsu málefni skila sér fullvel ef ekki betur fyrir ferðaþjónustuna," segir Bjarnheiður.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.990 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »

  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK