Hagnaður Kaupþings banka jókst um 292% á öðrum ársfjórðungi

Höfuðstöðvar Kaupþings banka við Borgartún.
Höfuðstöðvar Kaupþings banka við Borgartún.
Hagnaður Kaupþings banka nam 24.766 milljónum á fyrri hluta ársins og jókst um 280,1% miðað við sama tímabil í fyrra þegar hagnaðurinn var um 6,5 milljarðar. Hagnaður eftir skatta á öðrum ársfjórðungi nam 13.673 milljónum króna og jókst um 292% miðað við sama tímabil í fyrra þegar hagnaðurinn var um 3,5 milljarðar króna. Hagnaður á hlut á fyrri helmingi ársins nam 37,9 krónum samanborið við 14,9 krónur miðað við sama tímabil 2004.

Hreiðar Már Sigurðsson, forstjóri Kaupþings banka, segir í tilkynningu að uppgjör annars ársfjórðungs sýni að rekstur bankans gangi vel á öllum helstu markaðssvæðum. Arðsemi eigin fjár á fyrri helmingi ársins sé 36%, sem sé vel viðunandi, og á sama tíma haldi kostnaðarhlutfall áfram að lækka. Kaupin á breska bankanum Singer & Friedlander marki tímamót og færi Kaupþing banka nær því markmiði að vera í hópi leiðandi fjárfestingarbanka í Norður-Evrópu.

Arðsemi eigin fjár Kaupþings banka var 36,1% á fyrri helmingi ársins, en var 30,7% á fyrri helmingi ársins 2004. Hreinar rekstrartekjur á fyrri helmingi ársins 2005 námu 45.946 milljónum króna og jukust um 128,8% miðað við sama tímabil árið 2004. Rekstrarkostnaður nam 13.940 milljónum á fyrri helmingi ársins og jókst um 35,9% miðað við sama tímabil í fyrra. Kostnaðarhlutfall á fyrri helmingi ársins var 30,3%, samanborið við 51,1% á sama tímabili í fyrra.

Heildareignir námu 1899 milljörðum króna þann 30. júní 2005 og jukust um 22,2% frá áramótum.

Á fyrri helmingi ársins mynduðust 70% af rekstrartekjum bankans utan Íslands. Kaupþing banki hefur yfirtekið breska bankann Singer & Friedlander Group plc og mun rekstur hans koma inn í samstæðureikning Kaupþings banka frá og með þriðja ársfjórðungi.

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK