FL Group selur bréf sín í AMR

FL Group hefur selt mestallan hlut sinn í American Airlines.
FL Group hefur selt mestallan hlut sinn í American Airlines. AP

FL Group hefur selt stærstan hluta eignar sinnar í AMR, móðurfélagi American Airlines og á eftir söluna 1,1% í félaginu. Segir í tilkynningu frá FL Group að salan styrki sjóðsstöðu félagsins um 10 milljarða króna.

Í tilkynningu frá FL Group segir, að sala bréfanna sé í samræmi við stefnu FL Group um að auka fjölbreytni eignasafns síns og muni félagið í kjölfarið skoða áhugaverð fjárfestingatækifæri á markaði.

Gengi hlutabréfa í AMR hefur lækkað umtalsvert á árinu. FL Group segir, að í lok þriðja ársfjórðungs var markaðsvirði hlutar FL Group í AMR um 31,2 milljarðar króna. Á árinu 2007 hafi eignin lækkað um 15 milljarða króna, þar af hafi um 13 milljarðar nú þegar verið gjaldfærðir á fyrstu níu mánuðum ársins.

FL Group segir, að gengislækkunina megi að mestu skýra með mikilli hækkun olíuverðs og spám markaðsaðila um minni hagvöxt í Bandaríkjunum. Til að mynda hafi hráolíuverð í Bandaríkjunum hækkað um 60% á árinu.

„Þrátt fyrir að jákvæð skref hafi verið stigin af hálfu stjórnar AMR til að auka virði hluthafa félagsins og jákvæða umræðu í Bandaríkjunum, telur FL Group að of mikil óvissa ríki um þau áform og hvenær þeim yrði hrint í framkvæmd. Auk þess eru blikur á lofti um áframhaldandi hækkun olíuverðs og hugsanlegan samdrátt í bandarísku efnahagslífi. Í því ljósi var það ákvörðun félagsins að selja megnið af hlut sínum í AMR og skoða aðra fjárfestingakosti á markaði í kjölfarið," segir m.a. í tilkynningu FL Group.

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK