Baksvið: Alþjóðgjaldeyrissjóðurinn - með góðu eða illu

Dominique Strauss-Kahn, yfirmaður Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, IMF.
Dominique Strauss-Kahn, yfirmaður Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, IMF. Reuters

Óhákvæmileg er orðið að mati flestra sem til þekkja að Íslendingar leiti aðstoðar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins í þeim banka- og gjaldeyrishremmingum sem nú dynja á þjóðinni. „Það kemur orðið ekkert annað til greina, “ segir Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, sem þekkir innviði sjóðsins flestum íslendingum betur en hann sat í framkvæmdastjórn sjóðsins árið 2003.

Ætla má að það geti orðið þung spor fyrir ýmsa íslenska stjórnmálamenn að leita á náðir Alþjóða gjaldeyrissjóðsins því að heldur þykir það niðurlægjandi fyrir sjálfstæð ríki að gangast undir oft og tíðum mjög stranga skilmála sjóðsins enda til marks um að viðkomandi þjóð hafi ekki kunnað fótum sínum forráð.

Ísland meðal stofnenda 

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn (IMF) er hins vegar engan veginn óumdeildur. Gagnvart þróunar- og nýmarkaðslöndum hefur hann iðulega þótt einsýnn og einstrengingslegur húsbóndi, uppteknari af því í seinni tíð að troða gildum nýfrjálshyggju upp á slíkar þjóðir fremur en að taka mið af sérstökum aðstæðum í hverju landi fyrir sig.

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn er þó sprottinn upp úr jarðvegi algjörrar andstæðu nýfrjálshyggjunnar, þ.e. nýklassísku hagfræðinnar, en hann var stofnaður ásamt Alþjóðabankanum skömmu eftir seinna stríð, 27. desember 1945. Ísland var meðal 29 stofnlanda sem mynduðu þessar alþjóðastofnanir undir forystu Harry Dexter hjá bandarísk fjármálaráðuneytinu og breska hagfræðingsins John Maynard Keynes, sem löngum hefur verið tengdur New Deal áætlun F. D. Roosevelt Bandaríkjaforseta sem á endanum kvað niður kreppuna miklu á fjórða áratugnum.

Stofnfundurinn var haldinn í Bretton Woods í New Hampshire í Bandaríkjunum og Bretton Wood kerfið er kennt við, eins og kemur fram í frjálsa alfræðiritinu á netinu, Wikipedia. Í stofnskránni var kveðið á um að gengi Bandaríkjadals skyldi miðað við verð gulls. Þessi tenging dollarans við gull var síðan afnuminn 1971 og aftur var stofnskránni breytt 1978 þegar flotgengisstefnan var tekin upp og gullfóturinn afnuminn að fullu. Nú eru um 185 lönd aðilar að sjóðnum.

Ísland hefur samkvæmt því sem segir í Wikipedia fengið lán frá Alþjóðgjaldeyrissjóðnum í fjórgang - fyrst árið 1960 á árum Viðreisnarstjórnarinnar, þá 1967-68 í síldveiðibrestinum mikla, 1974-76 vegna olíuverðshækkananna og loks 1982 vegna útflutningsbrests. Afborgunum af lánum við sjóðinn hafi lokið 1987 og er Ísland skuldlaust við sjóðinn.

Meginhlutverk Alþjóðagjaldeyrissjóðsins er að auka samvinnu milli þjóða og tryggja stöðugleika alþjóða fjármálakerfisins. Hann kemur til aðstoðar þjóðum sem eiga við fjármálakreppur að etja og eins gjaldeyriskreppur og lánar fé til ríkisstjórna til að greiða fyrir því að koma eðlilegum gjaldeyrisviðskiptum af stað.

Óvinur óráðssíunnar

Vilhjálmur Egilsson segir að það orð sem fari af honum sem ströngum húsbónda tengist gjarnan því að sérfræðingar hans komi inn í umhverfi sem einkennist af óráðssíu í ríkisfjármálum og opinberum rekstri, jafnvel spillingu. Einatt sé þar um að ræða þróunarlönd og nýmarkaðslönd sem ekki hafi kunnað fótum sínum forráð.

Undanfarin ár hefur sjóðurinn hins vegar lítið þurft að láta til sína taka í vestrænum ríkjum, en þurfti hins vegar að grípa inn í þegar gjaldeyriskreppa skall yfir Asíu fyrir röskum áratug þar sem reyndi mjög á skipulag hins alþjóðlega fjármálakerfis og í það skiptið tókst að afstýra hnattrænni heimskreppu.

Líklega hefur þó Alþjóðgjaldeyrissjóðurinn aldrei staðið frammi fyrir risavaxnara verkefni frá stofnun en glímunni við þá ógnaröldu fjármálaumrótsins sem nú er að rísa beggja vegna Atlantshafsins og víðar. Vandamál Íslands eru væntanlega smámunir í því samhengiþó geigvænleg séu fyrir þjóðina og eins og komið hefur fram eru afleiðingarnar af falli íslenska bankakerfisins í nágrannalöndunum nógu hrikalegar að það hriktir í vináttuböndum gamalla granna. 

Gott að vera fyrstur í röðinni

Vilhjálmur Egilsson segir að þegar ríkisstjórn lands leiti eftir aðstoð Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sé sett í gang áætlun sem feli m.a. að veitt sé verulegum fjármunum til viðkomandi lands, gjarnan í samvinnu við tengda aðila, svo sem helstu seðlabanka svæðisins. Lánið sé til skamms tíma, yfirleitt 2-3 ár og í samningum er kveðið á um hvað hangi á spýtunni samfara láninu.

„Ísland hefur hingað til orðið harðast úti í þessum hamförum á alþjóða fjármálamörkuðunum,“ segir Vilhjálmur. „Fárviðrið hefur skollið fyrst á okkur en við verðum áreiðanlega ekki þau síðustu til að verða fyrir því. Þess vegna tel ég gott að við verðum fyrst þjóða í þessum hamförum til að leita aðstoðar hjá sjóðnum.“

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn á að vera vel undir aðstoðarbeiðni íslenskra stjórnvalda búin, ef til þess kemur að þangað verði leitað og skilyrði sjóðsins fyrir aðstoð verða ekki talin óaðgengileg. Fimm sérfræðingar sjóðsins hafa verið hér í vikunni að veita ráðgjöf og aðstoð í bankakreppunni íslensku, og að því er Davíð Oddsson, seðlabankastjóri, sagði í Kastljósi Sjónvarps á dögunum er þar á meðal einn helst sérfræðingur sjóðsins í upplausnarmálum banka.

 Í bandaríska stórblaðinu The New York Times í morgun er rætt við sérfræðinga sem þekkja vel til málefna Íslands, prófessorana Ársæl Valfells hjá HÍ og Richard Portes sem segjast báðir ekki sjá önnur úrræði heldur en að Ísland leiti aðstoðar Alþjóðgjaldeyrissjóðsins. Í frétt hér á vefnum fyrr í dag kemur fram í sömu frétt að Domenique Strauss-Kahn, framkvæmdastjóri sjóðsins, segist hafa virkjað neyðaráætlun sjóðsins sem ekki hafi verið við lýði frá því í gjaldeyriskreppunni í Asíu sem áður er getið. „Við erum reiðubúnir til þess að svara beiðni ríkja sem eiga í vandræðum,“ er haft eftir Strauss-Kahn.

Ísland er þarna ekki nefnt á nafn en nú kann hins vegar fljótlega að reyna á það mat Þorvaldar Gylfasonar, hagfræðiprófessors, í Silfri Egils um síðustu helgi, að sjóðurinn munu taka slíkri málaleitan stofnaðilans Íslands af velvilja. Eða telur ef til vill sjóðurinn líkt og umheimurinn að háttalag Íslendinga á fjármálamörkuðum á síðustu árum hafi verið með þeim hætti að þeir verðskuldi strangt húsbóndavald á borð við það sem einatt hefur verið beitt í nýmarkaðslöndum enda Ísland löngum talið í þeim hópi - í gjaldeyrismálum amk.

Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins.
Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins. mbl.is/G.Rúnar
mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK