Útiloka ekki hækkun stýrivaxta

Seðlabanki Íslands.
Seðlabanki Íslands. mbl.is/Golli

Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands var sammála um að halda stýrivöxtum óbreyttum í júlí en nefndarmenn telja að styrkist krónan ekki, geti reynst nauðsynlegt að hækka vexti. Þetta kemur fram í fundargerð nefndarinnar sem er birt á vef Seðlabanka Íslands.

Hlutverk peningastefnunefndar að ákveða stýrivexti ekki annarra

Á fundinum skýrði seðlabankastjóri nefndarmönnum frá fundum sem haldnir voru með aðilum vinnumarkaðarins, fulltrúa Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og nokkrum af stærstu útflutningsaðilum á Íslandi. Seðlabankastjóri greindi nefndarmönnum frá því að hann hefði lýst yfir almennum stuðningi sínum við það markmið stöðugleikasáttmálans að hraða efnahagsbatanum og lýst ánægju með þá víðtæku samstöðu sem náðst hefði á erfiðum tímum og kæmi fram í sáttmálanum.

Að hans mati dregur sáttmálinn jafnframt úr hættu á verulegum launahækkunum. Seðlabankastjóri ítrekaði hins vegar á fundi sínum með aðilum vinnumarkaðarins að það væri peningastefnunefndarinnar að ákveða stýrivexti í samræmi við lög um Seðlabankann.

IMF lýsir yfir áhyggjum af gengislækkun krónunnar

Á fundi bankastjórans með fulltrúa Alþjóðagjaldeyrissjóðsins lýsti fulltrúinn yfir áhyggjum sjóðsins af gengislækkun krónunnar og lagði áherslu á að brýnt væri að tryggja gengisstöðugleika. Stefnumörkun og framkvæmd í tengslum við gjaldeyrishöft varmeginefnið í viðræðunum við fulltrúa helstu útflutningsfyrirtækja.

Talsmenn fyrirtækjanna lýstu því yfir að þau styddu markmiðið með löggjöfinni um gjaldeyrishöft. Gögn bankans sýndu að gjaldeyrisinnstreymi hafði verið töluvert hjá flestum fyrirtækjunum. Hins vegar var ljóst að breytinga á verklagi nokkurra fyrirtækja var þörf og hafa fyrirtækin þegar hrint þeim í framkvæmd. Aukning útflutningstekna í erlendri mynt, sérstaklega hjá innlendu viðskiptabönkunum, gæti stuðlað að styrkingu krónunnar.

Seðlabankastjóri kynnti langtímaáætlun um aðgerðir í ríkisfjármálum og taldi hana líklega til að stuðla að lægra áhættuálagi á skuldir íslenska ríkisins, auka tiltrú á krónuna og þar með skapa aukið svigrúm til að draga úr peningalegu aðhaldi. Hann minntist einnig á þann árangur sem náðst hafði við endurfjármögnun viðskiptabankanna og tvíhliða lánasamninga við hinar Norðurlandaþjóðirnar en lagði áherslu á að til að meta skuldastöðu ríkisins væri nauðsynlegt að leysa Icesave-deiluna.

Krónueign útlendinga 610 milljarðar í lok júní

Þótt sjálfbærni í ríkisfjármálum hafi mikla þýðingu við afnám gjaldeyrishafta var nefndin þeirrar skoðunar að ennþá hafi ekki skapast skilyrði til að draga úr þeim.

Veiking á gengi krónunnar undanfarið gefur til kynna að ennþá sé töluverður þrýstingur til lækkunar. Að mati nefndarmanna er þörf á gjaldeyrishöftum til að styðja krónuna enn um hríð, en engu að síður er unnið að áætlun um að afnema þau í áföngum.

Einnig var rætt um krónueignir erlendra aðila. Samkvæmt nýju mati nam eign þeirra 610 ma.kr. í lok júní og hafði þá minnkað um 70 ma.kr. frá ársbyrjun. Langtímaeignir höfðu aukist lítillega en skammtímaeignir minnkað úr 330 ma.kr. í 260 ma.kr. Þó svo að mikillar óvissu gæti í þessu mati gefur það til kynna að verulega hefur dregið úr krónueignum erlendra aðila.

Mikið lausafé á krónumarkaði

Nefndin ræddi einnig nýlega þróun á innlendum fjármálamarkaði. Meðal þess sem fjallað var um var ofgnótt lausafjár á krónumarkaði, skilvirkni gjaldeyrishaftanna, viðskipti á innlendum gjaldeyrismarkaði og aflandsmarkaði, halli ávöxtunarferilsins og gjalddagar og útgáfa ríkisverðbréfa.

Sumir nefndarmenn lýstu yfir áhyggjum af of miklu lausafé á krónumarkaði og lögðu áherslu á nauðsyn þess að bæta lausafjárstýringu Seðlabankans. Of mikið lausafé gæti hafa átt þátt í veikingu krónunnar og því væri mikilvægt að draga umfram lausafé af markaðnum. Allir nefndarmenn lýstu yfir áhyggjum af nýlegri gengislækkun krónunnar.

Sumir þeirra töldu að það að farið hafi verið í kringum gjaldeyrishöftin gæti hafa vegið á móti afgangi á vöruskiptajöfnuði. Það, ásamt versnandi viðskiptakjörum og stórum vaxtagreiðslum í júní, hafi stuðlað að veikingu krónunnar.

Sumir nefndarmenn töldu að fyrri lækkanir stýrivaxta ætti óverulegan þátt í nýlegri gengislækkun krónunnar. Aðrir héldu því þó fram að ekki væri útilokað að umtalsverð lækkun stýrivaxta og sérstaklega stýrivaxtaákvörðunin í maí hefði haft einhver áhrif.

Því álitu nefndarmenn að ekki væri ráðlegt að slaka frekar á aðhaldi í peningamálum að svo stöddu, eða þar til krónan hefði styrkst verulega að nýju miðað við núverandi stöðu hennar. Jafnvel væri nauðsynlegt að hækka stýrivexti ef krónan styrktist ekki á næstunni.

Skattahækkanir og gengislækkun krónu skýra aukna verðbólgu

Nefndarmenn ræddu aukningu verðbólgu í júní. Helstu þættirnir sem stuðluðu að þessari aukningu voru skattahækkanir sem nýlega komu til framkvæmda og gengislækkun krónunnar. Þar sem þróunin í þjóðarbúskapnum hefur í grófum dráttum verið í samræmi við væntingar voru nefndarmenn sammála um að takmarkaður verðbólguþrýstingur væri til staðar og að verðbólgan myndi halda áfram að nálgast verðbólgumarkmiðið þegar gengi krónunnar næði jafnvægi.

Sumir nefndarmenn töldu að þörf væri á nokkru peningalegu aðhaldi til að viðhalda verðgildi krónunnar. Þeir höfðu áhyggjur af því að aukin verðbólga kynni að grafa undan tiltrú manna á peningastefnunni og krónunni. Stýrivextir mættu því ekki lækka of mikið á meðan hjöðnun verðbólgu stæði, svo tiltrú manna á gjaldmiðlinum myndi ekki skaðast frekar.

Nefndarmenn ræddu hvort halda bæri stýrivöxtum óbreyttum, sem og hvort hækka ætti þá lítilsháttar. Einnig var rætt um að hækka innlánsvexti eingöngu. Með hliðsjón af umræðunni lagði seðlabankastjóri til að stýrivextir og innlánsvextir yrðu óbreyttir. Sú tillaga var samþykkt samhljóða.

Þótt langtímaáætlun í ríkisfjármálum og endurskoðun kjarasamninga séu jákvæð skref er það skoðun peningastefnunefndarinnar að veik staða krónunnar komi í veg fyrir frekari vaxtalækkun. Fyrrnefndir þættir ættu þó að auka tiltrú á krónuna næstu misserin og þar með stuðla að gengishækkun hennar. Nefndarmenn telja jafnframt að styrkist krónan ekki, gæti reynst nauðsynlegt að hækka vexti.

Fundargerð nefndarinnar 

Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands: Gylfi Zoëga , Arnór Sighvatsson, Svein Harald …
Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands: Gylfi Zoëga , Arnór Sighvatsson, Svein Harald Öygard formaður, Anne Sibert og Þórarinn G. Pétursson
mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK