Hætta að selja flugmiða á 1 krónu

Norska lággjaldaflugfélagið Norwegian hefur gefist upp á að bjóða farmiða í innanlandsflugi í Danmörku vegna þess, að margir miðanna eru keyptir undir dulnefnum. Starfsmenn danska flugfélagsins Cimber Sterling urðu um helgina uppvísir að því að kaupa fjölda tilboðsmiða sem síðan voru ekki nýttar og flugvélarnar flugu hálftómar.

Fram kemur á vef Berlingske Tidende, að umfjöllun um miðakaup starfsmanna Cimber Sterling hafi greinilega orðið mörgum öðrum Dönum og jafnvel Norðmönnum innblástur en starfsmennirnir bókuðu margir miða undir nöfnum á borð við Andrés Önd.

 Starfsmenn Norwegian hafi nefnilega komist að raun um, að margir miðar sem keyptir voru á nettilboði í þessari viku, voru bókaðir undir nöfnum sem greinilega eru fölsk. 

Blaðið hefur eftir upplýsingafulltrúa flugfélagsins, að í þetta skipti sé engin ásæða til að ætla að starfsmenn Cimber hafi keypt miða. En í ljósi þessa neyðist flugfélagið til að hætta sölu á flugmiðum milli Kaupmannahafnar og Karup á Jótlandi fyrir 1 krónu.  

Starfsmenn Cimber Sterling, þar af nokkrir af yfirmönnum félagsins, reyndust hafa keypt samtals 650 flugmiða á tilboði Norwegian, sem er að hefja samkeppni, meðal annars við danska félagið, á danska flugmarkaðnum. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir