Væntingar um samkomulag

Seðlabanki Grikklands
Seðlabanki Grikklands Reuters

Grísk stjórnvöld munu í fyrramálið birta upplýsingar um samkomulag við lánardrottna um niðurfærslu skulda ríkisins. Helstu hlutabréfamarkaðir hafa hækkað í morgun vegna væntinga fjárfesta um að samkomulag náist.

Samkvæmt heimildum AFP-fréttastofunnar verður tilkynnt um niðurstöður viðræðna gríska ríkisins og einkarekinna fjármálafyrirtækja klukkan 6 í fyrramálið að íslenskum tíma.

Viðræðum lýkur klukkan átta í kvöld en unnið er að því að ná samkomulagi um að færa skuldir ríkisins við fjármálafyrirtæki niður um 107 milljarða evra. Samkomulagið er skilyrði fyrir því að Evrópusambandið og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn leggi gríska ríkinu til 130 milljarða evra á næstu tveimur árum. Skuldir gríska ríkisins nema um 350 milljörðum evra. 

Grísk stjórnvöld vilja helst að 90% lánardrottna samþykki niðurfærslu skulda en samþykki 75% kröfuhafa nægir.

Misvísandi upplýsingar hafa birst um hversu hátt hlutfall þeirra hafi samþykkt niðurfærsluna en samkvæmt heimildum BBC hafa 49% samþykkt en samkvæmt grískum fjölmiðlum hafa um 70% veitt samþykki. AFP-fréttastofan hefur ekki fengið það staðfest hjá gríska fjármálaráðuneytinu. 

mbl.is
Svæði

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir