Athugasemd frá Seðlabankanum

Seðlabanki Íslands.
Seðlabanki Íslands. mbl.is/Ernir

Í kjölfar fréttar Morgunblaðsins í dag um að tveir stórir erlendir aðilar hafi fengið að skipta krónum í gjaldeyri hefur Seðlabankinn sent eftirfarandi athugasemd frá sér. Athugasemd frá ritstjórn Morgunblaðsins má finna fyrir neðan athugasemd Seðlabankans.

Í ljósi þess sem fram kemur í forsíðufrétt Morgunblaðsins í dag um undanþágur frá lögum um gjaldeyrismál vill Seðlabanki Íslands taka fram eftirfarandi: 

Fréttin á forsíðu Morgunblaðsins um undanþágur frá lögum um gjaldeyrismál er í flestum atriðum röng. Engar undanþágur sem geta haft alvarleg áhrif á stöðugleika krónunnar hafa verið veittar til kaupa á gjaldeyri fyrir krónur til að flytja úr landi enda er það megintilgangur fjármagnshafta að varðveita gengisstöðugleika. Þá hefur Seðlabankinn ekki heldur notað gjaldeyrisforða sinn í ofangreindu skyni. Þeir sem þekkja til gjaldeyrismarkaðar vita að hefði undanþága verið veitt með þeim hætti sem lýst er í blaðinu hefði gengi krónunnar fallið verulega. Ekkert slíkt hefur gerst, enda engin undanþága af þessu tagi verið veitt. 

Það er heldur ekki nákvæmt sem fram kemur á forsíðu Morgunblaðsins að Seðlabankinn hafi ekki svarað fyrirspurn blaðsins um það hverjar væru verklagsreglur bankans þegar beiðni berst um undanþágu frá fjármagnshöftum. Undanþágur eru veittar til að draga úr neikvæðum áhrifum fjármagnshafta. Seðlabankinn veitir einnig undanþágur til að stuðla að úrlausn mála er varða fjármálakerfið ef lausn þeirra er talin mikilvæg og til bóta fyrir kerfið í heild. Í öllum tilfellum er þess gætt að áhrifin á gengisstöðugleika séu takmörkuð. Eins og fram kemur í innsíðufrétt benti Seðlabankinn á þau ákvæði laga nr. 87/1992 um gjaldeyrismál þar sem kveðið er á um að við mat á beiðni um undanþágu skuli Seðlabankinn horfa til þess hvaða afleiðingar takmarkanir á fjármagnshreyfingum hafa fyrir umsækjanda, hvaða markmið eru að baki takmörkunum og hvaða áhrif undanþága hefur á stöðugleika í gengis- og peningamálum. Þannig er ákveðið með lögum hvaða sjónarmið skulu lögð til grundvallar afgreiðslu undanþágubeiðna og verklagsreglur bankans breyta ekki þeim skilyrðum. Því var einnig svarað að sérstakar verklagsreglur hefðu ekki verið birtar opinberlega. Verklagsreglum bankans vegna afgreiðslu undanþágubeiðna er fyrst og fremst ætlað að tryggja að við meðferð afgreiðslu undanþágubeiðna fái sambærilegar beiðnir sambærilega meðferð. Verklagsreglur bankans hafa verið yfirfarnar af endurskoðendum bankans og kynntar bankaráði, sem er hinn lögformlegi eftirlitsaðili með starfsemi hans. Upplýsingar um einstakar undanþágur er eðli málsins samkvæmt ekki hægt að gera opinberar.


Aths. ritstj.

Í yfirlýsingu frá Seðlabankanum sem birt er hér að ofan er því haldið fram að frétt Morgunblaðsins, um að Deutsche Bank og erlent fjárfestingafélag hafi í sumar fengið heimild frá Seðlabankanum til að skipta 18 milljörðum króna yfir í gjaldeyri, sé „í flestum atriðum röng.“ Í yfirlýsinguna vantar rökstuðning við þessa fullyrðingu, útskýringar Seðlabankans eru óljósar og ófullnægjandi og bankinn neitar að veita upplýsingar um undanþágur frá gjaldeyrishöftum. Slíkar upplýsingar myndu auðvelda mjög umræður um þessi mál og draga úr þeirri tortryggni sem ríkir í garð Seðlabankans vegna framkvæmdar gjaldeyrishaftanna. Morgunblaðið telur heimildir sínar áreiðanlegar og ekkert í yfirlýsingu Seðlabankans gefur ástæðu til að efast um þær.

Vegna orða Seðlabankans um að þeir „sem þekkja til gjaldeyrismarkaðar“ viti að slík undanþága hefði fellt gengi krónunnar verulega er rétt að vekja athygli á því, að gengi krónunnar hefur lækkað um meira en 7% gagnvart evrunni – úr 149 krónum í 160 krónur – frá því að Peningamál Seðlabankans voru kynnt 22. ágúst síðastliðinn. Þetta er verulegt fall á tæpum mánuði. Á fundi með blaðamönnum, þegar rit bankans var kynnt, taldi Már Guðmundsson hins vegar ástæðu til að ætla að veruleg gengisstyrking krónunnar mánuðina á undan væri ekki eingöngu tilkomin vegna árstíðarsveiflna. Því væri ekki endilega ástæða til að ætla að krónan myndi gefa eftir á komandi misserum. Í Peningamálum er gert ráð fyrir því að gengi krónunnar gagnvart evru verði að meðaltali 150 á næsta ári. 

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK