„Ferðamenn eru ekki vitleysingar“

Við Dettifoss í Jökulsárgljúfrum. Martin segir Ísland vera sérstakt, en …
Við Dettifoss í Jökulsárgljúfrum. Martin segir Ísland vera sérstakt, en varar við of miklum verðhækkunum.

Forsvarsmenn erlendra ferðaskrifstofa voru síður en svo sáttir með boðaðar hækkanir á virðisaukaskatti á gistinætur og framkvæmd þeirra þegar þeir komu saman á Vestnorden ferðakaupstefnunni í Hörpunni nú í vikunni. Flestir voru sammála um að hækkanirnar kæmu sér illa varðandi fjölda ferðamanna, bæði vegna hærra verðs og líka vegna mikillar óvissu um það hvenær til hækkunar kæmi. Mbl.is ræddi við tvo aðila hjá erlendum ferðaskrifstofum um þessar breytingar og hvaða afleiðingar þetta hefði á ferðamannastrauminn hingað til lands.

„Ferðamenn eru ekki vitleysingar“

Martin Wäger vinnur hjá AG Traveltrend í Sviss og hefur verið tengdur Íslandi gegnum ferðaþjónustu síðustu 35 ár. Hann segir að sín fyrsta hugsun þegar hann heyrði af boðuðum hækkunum hafi verið „brjáluðu Íslendingar“, því þrátt fyrir allt sem hann hafi upplifað í gegnum þennan markað síðustu áratugi, þá hafi hann sjaldan séð eitthvað jafn vitlaust. „Það er svo fjarstæðukennt að koma með þessa hugmynd, um að lama heila atvinnugrein með svona mikilli hækkun, að fólki getur hreinlega ekki verið alvara“ segir Martin.

Þrátt fyrir að hann telji sig hugsa um ferðaþjónustu almennt á faglegum nótum, þá segir hann að þetta snerti sig persónulega, enda hafi hann verið það lengi tengdur landinu. Hann ítrekar þó að enginn sé ómissandi og að spilin geti auðveldlega snúist í höndum stjórnvalda ætli þau sér að fara svona óðslega. „Ferðamenn eru ekki vitleysingar og þótt Ísland sé gott land, jafnvel mjög sérstakt land, þá er aðeins ákveðin upphæð sem þeir hafa til ráðstöfunar fyrir ferðalög. Þannig að ef verðið fer yfir ráðstöfunarupphæð þeirra, þá munu þeir horfa til annarra landa, t.d. Svíþjóðar eða Írlands, þar sem þeir geta fengið svipaða eða jafnvel betri þjónustu á lægra verði.“

Fljótar að snúa sér annað

Hann varar jafnframt við því að ferðaskrifstofur séu fljótar að beina viðskiptum sínum þangað sem ábatinn er mestur. Ísland hafi þótt góður kostur þar sem verðið hafi lækkað nokkuð eftir hrun, þó það sé ekki ódýr staður. Með miklum hækkunum muni ferðaskrifstofurnar færa allt sitt markaðsfé yfir í aðra viðkomustaði og slíkar breytingar gerist hratt. „Ef ferðaskrifstofur erlendis missa áhuga á Íslandi, þá þýðir það að minni peningum verður varið í kynningu á ferðum til landsins. Við horfum á hagnað af ferðum og ef pöntunum fækkar til Íslands þá þýðir það einfaldlega að við munum beina markaðskröftum okkar annað, eins og til Írlands sem hefur verið vaxandi áfangastaður hjá okkur.“

„Ísland er ekki miðja ferðamannaheimsins“

Martin segir að Íslendingar þurfi að vera raunsæir í þessum efnum og megi ekki gera ráð fyrir því að fólk komi hingað í straumum, jafnvel þótt verð sé hækkað óhóflega. Í Sviss hafi síðast verið mjög mikil umræða þegar hækka átti virðisaukaskatt um 0,7 prósentustig, en í tilfelli Íslendinga sé verið að ræða um 18 prósentustiga hækkun. „Draumur getur náð eins langt og ráðstöfunarfé leyfir, en svo endar hann. Ef verðið verður of hátt þá kaupa þeir einfaldlega ekki ferðina. Ísland er ekki miðja ferðamannaheimsins eða draumur hverrar manneskju“ segir Martin og bætir við að Íslendingar þurfi vinsamlegast að vera raunsæir. 

Þurfa lengri fyrirvara

Víglundur Gíslason starfar hjá Vulkan resor í Svíþjóð, en fyrirtækið stendur á bakvið komur um 10 þúsund ferðamanna á ári hingað til lands. Hann segir að það sem plagi fyrirtækið sé aðallega að þau geti ekki gefið upp endanleg verð til viðskiptavina. „Við erum að lenda í því að [íslensk] fyrirtæki hafi ekki getað ákveðið verið fyrir næsta sumar og þá erum við nokkuð stopp hvað varðar að bóka einstaklinga eða hópa þar sem við getum endað með verð sem standast ekki.“

Segir hann þetta sérstaklega slæmt í því ljósi að fólk skipuleggi ferðalög til útlanda oft með mun lengri fyrirvara en hér á Íslandi. „Við skiljum þetta ekki hérna í Svíþjóð. Þá er það ekki hækkunin sjálf sem skiptir mestu máli, heldur hvenær hún kemur til framkvæmda. Hérna úti eru menn venjulega að vinna 1 ár eða meira fram í tímann og ef fjárlög ef eru ákveðin í desember, þá ættu þessar hækkanir ekki að taka gildi fyrr en 2014 svo fyrirtæki gætu undirbúið sig.“

Geta farið fram á fulla endurgreiðslu

Í Svíþjóð eru einnig reglur í gildi um að viðskiptavinir geti átt rétt á fullri endurgreiðslu ef uppgefið verð breytist út fyrir ákveðin mörk. „Ef ákvörðunin verður tekin svona seint og tekur gildi á miðju sumri, þá lendum við í vandræðum því viðskiptavinurinn hefur rétt á að afbóka ferð með fullri endurgreiðslu ef hækkanir fara yfir ákveðið mark“ segir Víglundur og bendir á að viðmiðið sé 60 sænskar krónur, eða rétt rúmlega 1000 íslenskar krónur. „Oft um að ræða fólk sem er að kaupa 10 þúsund króna ferð, gistingu um allt landið og svo kemur hækkun upp á 15 til 20%. Þá er það hreinlega samningsbrot og fólk hefur fullan rétt á að afbóka og fá fulla endurgreiðslu.“ Segir hann að það sé klárt mál að einhverjir muni hætta við ferðir, en þessi óvissa sé erfiðasti hlutinn fyrir flesta.

Frá Kili
Frá Kili mbl.is/Einar Falur
Efnisorð: ferðamenn
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK