Lítil verðbólga og áfram samdráttur

Vísitala neysluverðs hækkaði um 0,1% í maí á Spáni. Verðbólga, mæld á tólf mánaða tímabili, er 1,8% á Spáni og er hún einkum tilkomin vegna verðhækkana á mat og gosdrykkjum. Stjórnvöld hækkuðu söluskatt í september í fyrra í þeirri von að draga úr halla ríkissjóðs.

Verðbólgan er því undir verðbólgumarkmiðum Seðlabanka Evrópu sem eru 2% en einkaneysla er lítil á Spáni enda gríðarlegt atvinnuleysi og kreppa í landinu.

Samdráttur mældist 0,5% á Spáni á fyrsta ársfjórðungi og er það sjöundi ársfjórðungurinn í röð þar sem samdráttur mælist í landinu. Í gær greindi framkvæmdastjórn Evrópusambandsins frá því að Frakkland, Spánn, Holland, Slóvenía, Pólland og Portúgal myndu fá aukinn tíma, allt að tvö ár, til að klára áætlanir sínar um aukið aðhald. Fá ríkin lengri tíma til að minnka fjárlagahalla og koma honum undir 3% af landsframleiðslu.

José Manuel Barroso, forseti stjórnarinnar, hvatti í gær m.a. Frakka til að nota tímann skynsamlega og efla samkeppnishæfni þjóðarinnar með því að draga úr álögum á fyrirtækin og minnka útgjöld til félagsmála. „Við erum ekki að bjóða upp á auðvelda undankomuleið, við gerum kröfur,“ sagði hann.

Barroso hvatti einnig stjórnir ESB-ríkja til að hraða umbótum og ljúka við áætlun um bankabandalag. Hann sagði ástæðuna fyrir þessari nýju vægð gagnvart halla vera að efnahagur umræddra ríkja stæði verr en áætlað hefði verið.

En Barroso viðurkennir þá um leið rök þeirra sem gagnrýnt hafa harkalegan niðurskurð opinberra útgjalda og sagt að með þeirri aðferð sé verið að ýta undir kreppuna í Evrópu.

Efnahags- og samvinnustofnunin, OECD, lækkaði í gær spár um hagvöxt á evrusvæðinu 2013, gerir nú ráð fyrir samdrætti er nemi 0,6%.

.

Spánverjar halda mjög að sér höndum enda hefur ríkt kreppa …
Spánverjar halda mjög að sér höndum enda hefur ríkt kreppa í landinu í fimm ár AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK