Bíósalur, golfhermir og bókasöfn

Bíósalur sem getur hýst alla starfsmenn fyrirtækisins, bókasöfn úti á göngum og golfhermir er meðal þess sem starfsfólk Íslenskrar erfðagreiningar hefur aðgang að í höfuðstöðvum fyrirtækisins í Vatnsmýrinni. Blaðamaður mbl.is kíkti í heimsókn og athugaði hvernig aðstaða starfsmanna væri og hvað starfsmenn gerðu bæði á og utan vinnutíma.

Í starfsstöðinni eru um 130 starfsmenn fyrirtækisins, en auk þess hafa um 70 einstaklingar tengdir Háskóla Íslands aðsetur. Miðað við stærð húsnæðisins hefur hver starfsmaður rúmlega 70 fermetra fyrir sig að meðaltali. Helgast það meðal annars af risastóru sameiginlegu rými í miðju húsnæðisins, en þar er matsalur, nokkur lítil bókasöfn og önnur afþreying staðsett. 

Meðal þess sem starfsmenn geta stytt sér stundir við er borðtennis og að spila golf í golfhermi. Þegar blaðamaður leit inn voru aftur á móti engar golfkylfur á staðnum, enda voru allir golfáhugamenn búnir að taka kylfur sínar út á völlinn yfir sumartímann. 

Eins og á mörgum öðrum vinnustöðum er þó nokkuð gert út á heilsu starfsmanna og hvetur fyrirtækið starfsmenn til hreyfingar með bæði samgöngu- og íþróttastyrkjum. Þá eru ýmsir íþróttahópar innan fyrirtækisins og sjósundshópur sem fer nokkrum sinnum í viku í Nauthólsvíkina, hvernig sem viðrar. Fyrir þá starfsmenn sem vilja hjóla eða ganga til vinnu eru stórir búningsklefar á öllum hæðum þar sem hægt er að geyma fatnað og skola af sér.

Þá er vinsælt að nýta bíó- og fyrirlestrasalinn til að fylgjast með stórviðburðum í íþróttum, en salurinn er einnig notaður undir fyrirlestra erlendra og innlendra fræðimanna sem starfsmenn geta sótt.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK