Keppast um að aðstoða Frankenstein

Kristín Guðmundsdóttir stofnaði fyrirtækið Kvasi Games ásamt samnemendum sínum og ...
Kristín Guðmundsdóttir stofnaði fyrirtækið Kvasi Games ásamt samnemendum sínum og hafa þau hannað tvö borðspil.

Kristín Guðmundsdóttir útskrifaðist nýlega úr Upplýsingatækniháskólanum í Kaupmannahöfn þar sem hún lærði tölvuleikjagerð. Fyrstu verkefni hennar hafa aftur á móti verið á allt annarri hillu, en hún hefur ásamt fjórum samnemendum sínum stofnað fyrirtækið Kvasir Games sem hefur hannað tvö borðspil og mun annað þeirra koma á markað snemma á næsta ári. Bæði spilin unnu til verðlauna á leikjahátíðum í Danmörku á þessu og síðasta ári, en meðal annars fengu þau framleiðslustyrk til að koma hugmyndunum á framfæri.

Fjölbreyttur hópur á bakvið hönnunina

Fyrir tæplega tveimur árum hitti hún samstarfsfélaga sína á leikjahátíðinni Nordic game jam, en þar fengu þau meðal annars það verkefni að hanna tölvuleik eða borðspil á 48 klukkustundum. Hópurinn var nokkuð fjölbreyttur, en auk Kristínar eru í hópnum Færeyingur, Norðmaður, Rúmeníubúi og Maltverji. 

Þau smullu vel saman og hönnuðu spil frá grunni þar sem spilarar eru ræningjar í höll arabísks kalífa. Markmiðið er að komast óséður út úr höllinni, en varðmenn eru á hverju strái. Kristín segir að þetta spil hafi verið hugsað fyrir eldri spilendur, enda gangi það að miklu leiti út á að vera kvikindislegur við samspilendur sína.

Fengið verðlaun fyrir bæði spilin

Fyrir þetta spil hlutu þau verðlaun fyrir besta borðspilið á hátíðinni og komust í úrslit í opnum flokki fyrir bæði tölvuleiki og borðspil. Ári seinna héldu þau svo aftur á sömu hátíð með annað spil í farteskinu, en í þetta skiptið var einnig horft til yngri einstaklinga. Kristín segir að spilið gangi út á að spilendur keppist við að koma saman bestu skrímslunum og komast þannig í vinnu sem aðstoðarmaður dr. Frankensteins.

Seinna spilið fékk einnig mikla athygli á leikjahátíðinni og fengu þau verðlaun fyrir söluvænlegasta spilið og í framhaldinu útgáfustyrk sem þau hafa nú nýtt til að gefa spilið út, en það heitir Wanted:Igor!

Borðspil standa höllum fæti 

Kristín segist alltaf hafa haft gaman af spilum og segir leiðinlegt hvað þau standi höllum fæti í heiminum í dag. Það séu helst Norðurlöndin og Þýskaland sem haldi heiðri þeirra uppi þessa stundina, en segir Íslendinga örugglega skora hátt í borðspilaáhuga, allavega ef horft er til gömlu tuggunnar um höfðatölu.

Hún segir að ekki séu miklir peningar í svona framleiðslu og að hún sé helst gerð af ástríðu í stað peningavonar. Aðspurð hvort hún ætli sér að fara í frekari spilaframleiðslu gerir hún ráð fyrir því og vonast meðal annars til að geta gefið út Wanted:Igor! spilið á næsta ári á Íslandi. Hún segir tölvuleikjaáhugann þó ekki fokinn út í veður og vind, því þegar þessi útgáfa klárist muni hún horfa í þá átt.

Wanted:Igor! spilið mun koma út á næsta ári í Danmörku, ...
Wanted:Igor! spilið mun koma út á næsta ári í Danmörku, en Kristín vonast til að það verði einnig gefið út á Íslandi.
Spilið Mussades þar sem markmiðið er að komast úr höll ...
Spilið Mussades þar sem markmiðið er að komast úr höll kalífa framhjá varðmönnum.
mbl.is

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir