Stórfelld uppbygging í Skeifunni

Deiliskipulag gerir ráð fyrir að á reitnum verði reist skeifulaga …
Deiliskipulag gerir ráð fyrir að á reitnum verði reist skeifulaga bygging upp á 16 þúsund fermetra ofanjarðar. Hér má sjá útlitsmynd séð frá Laugardalnum. Mynd/Faghús

Verktakafyrirtækið Faghús ehf. hyggst reisa rúmlega 16 þúsund fermetra skrifstofuhúsnæði á horni Grensásvegar og Suðurlandsbrautar, í útjaðri Skeifunnar, þar sem verkfræðifyrirtækið Mannvit hefur haft höfuðstöðvar síðustu ár. Til viðbótar verður um 13 þúsund fermetra bílakjallari. Húsnæðið verður með skeifulaga útlit og allt að fimm hæðir til viðbótar við þrjár hæðir af bílastæðum neðanjarðar.

Byggðu upp Hlíðasmára

Framkvæmdir við bílakjallarann eru þegar hafnar á lóðinni og búið að steypa upp 3.700 fermetra á þremur hæðum. Framkvæmdirnar verða í nokkrum áföngum, en svo verður allt tengt saman í eina byggingu.

Faghús hefur komið að ýmiss konar framkvæmdum frá árinu 1985 og var til dæmis stórtækt við uppbyggingu í Smárahverfinu. Það reisti meðal annars miðjuna og önnur skrifstofuhúsnæði í Hlíðarsmára. Þá byggði fyrirtækið heilsugæsluna í Kópavogi og Árbæ ásamt fjölda íbúðahúsa

Mannvit fór í Urðarhvarf og seldi Grensásveg

Mannvit tilkynnti í síðustu viku flutning á starfsstöðvum fyrirtækisins yfir í Urðarhvarf 6 í Kópavogi. Fyrir hafði fyrirtækið verið á þremur stöðum á Grensásvegi og í Ármúla. Faghús á það húsnæði, en samhliða þessari breytingu festi það kaup á eign Mannvits við Grensásveg 1, þar sem fara á í uppbygginguna. Með kaupunum fylgdi öll hönnunarvinna á reitnum sem Mannvit hafði látið gera.

Eigendur Faghúss eru Matthías Sveinsson og Jón Þór Hjaltason í gegnum félögin Ögur og Miðjuna, en í samtali við mbl.is segir Matthías að mikil tækifæri hafi falist í kaupum á eignunum að Grensásvegi 1. Hann segir staðsetninguna vera frábæra innan höfuðborgarinnar, en Faghús mun á næstu misserum kynna framkvæmdirnar nánar. Matthías segir að nokkrir aðilar hafi þegar sýnt verkefninu áhuga, en ekki hafi þó enn verið skrifað undir neina leigusamninga. Munu fyrstu formlegu fundir við mögulega leigjendur fara fram í næstu viku að hans sögn.

Möguleiki fyrir Landsbankann

Matthías bendir á að um sé að ræða gífurlegt byggingarmagn og húsnæðið gæti því allt eins dugað undir stærri opinberar stofnanir eða höfuðstöðvar hjá fjármálastofnunum. Nefnir hann í því samhengi að Landsbankinn hafi lengi horft til lóðar við Hörpu sem sé margfalt dýrari.

Burðarvirki og hönnun hússins gerir reyndar ráð fyrir að hægt verði að hafa margskonar starfsemi í húsinu og segir Matthías að það muni ekki skipta máli hvort það verði blönduð starfsemi, skrifstofurými, hótel eða jafnvel læknastofur.

Frekari framkvæmdir hefjast á þessu ári

Endanlegur tímarammi framkvæmdarinnar hefur ekki verið ákveðinn, en Matthías segir að það velti nokkuð á því hvernig gangi að semja við væntanlega leigjendur. Hann á þó von á því að farið verði í frekari framkvæmdir á reitnum á þessu ári.

Reiturinn eins og hann er í dag.
Reiturinn eins og hann er í dag. Mynd/Batteríið
Reiturinn eins og hann er áformaður eftir uppbygginguna, samkvæmt núverandi …
Reiturinn eins og hann er áformaður eftir uppbygginguna, samkvæmt núverandi deiliskipulagi. Mynd/Batteríið
Til skoðunar er að stækka bygginguna enn frekar, eða um …
Til skoðunar er að stækka bygginguna enn frekar, eða um tæplega 2.500 fermetra. Slíkt hefur þó ekki farið í gegnum deiliskipulag. Mynd/Batteríið
mbl.is

Bloggað um fréttina

  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK