800 kommóður á nokkrum mínútum

Þórarinn Ævarsson, framkvæmdastjóri IKEA og MALM kommóðan.
Þórarinn Ævarsson, framkvæmdastjóri IKEA og MALM kommóðan. Samsett mynd

Opnun IKEA í morgun var úthugsaður leikur. Nokkurra vikna lager af MALM kommóðum hafði verið safnað upp. Alls 800 stykkjum. 800 viðskiptavinir fengu skilaboð um að þetta væru síðustu stykkin á lækkuðu verði. Bannað var að hamstra en allt kláraðist á 25 mínútum.

Þetta jafngildir því að 32 kommóður hafi verið seldar á hverri mínútu.

Líkt og fram hefur komið hefur verðstríð á kommóðum staðið yfir milli IKEA og Rúmfatalagersins um nokkurt skeið. Rúmfatalagerinn hóf leikana og IKEA þurfti að fylgja vegna verðverndarstefnu fyrirtækisins. IKEA þarf að vera ódýrari ef sambærileg vara er til sölu annars staðar.

Í ág­úst 2011 var verðið á MALM-kommóðum í há­marki. Þá kostaði hvít kommóða með tveim­ur skúff­um 8.950 krón­ur, með fjór­um skúff­um kostaði 17.950 og með sex skúff­um kostaði 29.950. Þá byrjaði Rúmfatalagerinn að lækka verðið og í dag kostaði kommóða með tveimur skúffum 1.050 krónur og með sex skúffum kostaði 3.590 krónur.

Frétt mbl.is: Verðstríð: Kommóður lækka um 85%

Eftir daginn í dag hækka kommóðurnar hins vegar aftur í verði að sögn Þór­ar­ins Ævars­sonar, fram­kvæmda­stjóra IKEA. Hann segir að verðið fari aftur upp í það sem eðlilegt þykir og bætir við að fyrirtækin hafi verið að borga með vörunni í dágóðan tíma.

Ástæðan er þó ekki sú að Rúmfatalagerinn hafi dregið sig í hlé heldur mun ný kommóða taka við af MALM. Sú nefnist KULLEN og er í sama stíl en þó aðeins minni og af minni gæðum. „Það er komin ódýrari kommóða og við munum keppa við Rúmfatalagerinn með henni,“ segir Þórarinn. 

Vonbrigði með fýluferð

„Við erum búin að safna lager af MALM í nokkrar vikur vegna þess að við höfum frá áramótum verið að fá um fimmtíu til sextíu kommóður í hverri sendingu og kerfið okkar virkar þannig að allir sem eru búnir að skrá sig á biðlista fá SMS um að varan sé komin,“ segir Þórarinn. „Það eru ekki einungis þeir sem eru fremstir í röðinni sem fá SMS, heldur allir.“

Þetta hefur valdið fólki sem komið hefur í fýluferð í IKEA vonbrigðum að sögn Þórarins. „Þá voru margir að hamstra og einhverjir voru að taka 15 til 20 kommóður. Fáir fengu því allt,“ segir hann. „Það er ekki markmiðið með þessu og við viljum að sem flestir fái að njóta.“

Alls voru um 800 manns á biðlista eftir kommóðum og ákvað IKEA því að safna 800 kommóðum áður en næsta SMS yrði sent út. Loks var ákveðið að senda skilaboð til allra í gærkvöldi til þess að fólk gæti gert ráðstafanir. „Venjulega er þetta sent að morgni en það gæti komið í bakið á barnafjölskyldum sem kannski eru bara á einum bíl. Við vildum að sem flestir gætu komist.“

Í skilaboðunum kom einnig fram að ekki mætti hamstra. Einungis tvær kommóður á mann væru í boði.

Verslun IKEA var opnuð klukkan ellefu í morgun og 25 mínútum síðar var allt búið. Sú dýrasta og stærsta, með sex skúffum, kláraðist á fimm mínútum að sögn Þórarins. „Það fóru 200 stykki af henni.“

Bregðast við slagnum

„Þetta var lokaskammturinn. Svo kemur nýja kommóðan í sölu í þessari viku og næstu MALM-kommóður fara á eðlilegt verð,“ segir hann. Aðspurður um eðlilegt verð telur hann að tveggja skúffu einingin, sem í dag kostaði 1.050 krónur, muni t.a.m. kosta í kringum átta þúsund krónur.

KULLEN er ný framleiðsla hjá IKEA og telur Þórarinn ekki ólíklegt að hún hafi verið framleidd í þeim tilgangi að bregðast við verðstríðinu frá Rúmfatalagernum.

„Þetta er greinilega mál sem IKEA er að glíma við á fleiri stöðum þar sem þessi nýja kommóða var kynnt fyrir okkur í nóvember á síðasta ári. Hún átti að koma í sölu í mars en seinkaði síðan þar til núna. Ég held það sé verið að bregðast við því að Rúmfatalagerinn er í smá slag við IKEA.“

Rúmfatalagerinn hefur verið í stríði við IKEA á fleiri vígstöðvum ...
Rúmfatalagerinn hefur verið í stríði við IKEA á fleiri vígstöðvum en á Íslandi. mbl.is/Friðrik
KULLEN-kommóðan er svipuð og MALM en ódýrari framleiðsla.
KULLEN-kommóðan er svipuð og MALM en ódýrari framleiðsla.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Svæði

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir