Pokémon Go safnar öllum gögnunum

Mikið Pokémon Go-æði hefur runnið á heimsbyggðina síðan leikurinn kom …
Mikið Pokémon Go-æði hefur runnið á heimsbyggðina síðan leikurinn kom út í síðustu viku. AFP

Áhyggjur hafa vaknað um öryggi snjallsímaleiksins Pokémon Go sem hefur farið sigurför um heiminn undanfarna viku. Leikurinn gefur sjálfum sér heimild til þess að safna umfangsmiklum upplýsingum um notendur sína og hefur jafnvel gefið sér aðgang að tölvupósti fólks.

Fleiri milljónir snjallsímaeigenda hafa náð sér í Pokémon Go frá því að hann kom út í Bandaríkjunum í síðustu viku. Líkt og mörg önnur smáforrit biður leikurinn um aðgang að ýmsum öðrum forritum snjalltækjanna þegar hann er settur upp.

Samkvæmt reglum Pokémon Go um friðhelgi einkalífsins getur framleiðandinn Niantic meðal annars safnað upplýsingum um tölvupóstfang, IP-tölu, hvaða vefsíðu notandinn fór síðast inn á áður en hann opnaði leikinn, notendanafn hans og staðsetningu. Út frá GPS-staðsetningunni sem leikurinn byggist að miklum hluta á getur framleiðandinn svo lesið út hvert notandinn fer, hvenær hann fer þangað, hversu lengi hann dvelur þar og með hverjum, að því er kemur fram í frétt Buzzfeed.

Tölvuþrjótar gætu komist yfir Google-reikninga milljóna manna

Upplýsingasöfnunin endar þó ekki þar. Til að skrá sig inn í leikinn hefur annaðhvort verið hægt að stofna reikning á vefsíðu Pokémon eða tengjast í gegnum Google-reikning. Í frétt The Independent segir að hætt sé að taka við nýjum notendum á Pokémon-vefsíðunni og því skrái nýir notendur sig inn í gegnum Google.

Þá bregður svo við að leikurinn gefur sjálfum sér aðgang að Google-reikningi notandans eins og hann leggur sig, þar á meðal tölvupósti, Drive-skýþjónustu Google, dagatölum og fleiru, en án þess að láta notandann vita. Hann þarf sjálfur að velja það sérstaklega að veita ekki þennan aðgang. Í því samhengi má benda á að fjölmargir notendanna eru börn.

Frétt mbl.is: Pokémon stærri en Tinder

Fyrir utan þá víðtæku heimild sem Niantic fær til að sýsla með persónuleg gögn notenda Pokémon Go, sem það hefur heimild til að deila með ýmsum aðilum, hafa tölvuöryggissérfræðingar áhyggjur af því hvað gerist ef tölvuþrjótar ákveða að brjótast inn á vefþjóna leiksins.

Þannig gætu óprúttnir aðilar komist yfir Google-reikninga milljóna manna. Vinsældir leiksins þýða að nánast óumflýjanlegt er að spjót tölvuþrjóta komi til með að beinast að honum.

Hægt er að skoða hvaða aðgang Pokémon Go hefur gefið sér að Google-reikningi notenda hér. 

Uppfært 11:21 Niantic hefur sent vefsíðunni Polygon yfirlýsingu um að Apple-notendur gefi Pokémon Go fullan aðgang að Google-reikningi sínum án möguleika á að breyta því. Þar segist fyrirtækið nýlega hafa uppgötvað þau mistök að leikurinn krefjist fulls aðgangs þegar fólk skráir sig fyrst inn. Hann safni hins vega aðeins grunnupplýsingum frá Google, tölvupóstfanginu og upplýsingum um notandann. Aðrar upplýsingar á reikningunum hafi ekki verið skoðaðar. Verið sé að vinna að uppfærslu til að kippa þessu í liðinni. Google hafi staðfest að Pokémon Go hafi ekki fengið annan aðgang að reikningum notenda.

Frétt Buzzfeed

Frétt The Independent

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK