Flytja gullforðann heim til Þýskalands á ný

Sá hluti þýska gullforðans sem geymdur er í Frankfurt. Flutningi …
Sá hluti þýska gullforðans sem geymdur er í Frankfurt. Flutningi á hluta gullsins til Þýskalands frá New York og París var flýtt um nokkur ár. AFP

Þýski seðlabankinn hefur þegar hafist handa við að flytja gullbirgðir sínar heim til Þýskalands. Gullið hefur allt frá tímum kalda stríðsins verið geymt í París og New York, fjarri ráðamönnum í Moskvu. Um er að ræða 3.378 tonn af gulli sem metin eru á um 120 milljarða evra og hefur gullforðinn orðið táknmynd þýsks fjármálastöðugleika.

Þar sem ýmsar hremmingar virðast herja á Evrópusambandið um þessar mundir segir Reuters-fréttastofan þýskan almenning hafa orðið áhyggjur af því að gullið sé geymt erlendis. Hafa sumir jafnvel fært rök fyrir því að gullið kunni að verða nauðsynlegt til að tryggja nýjan þýskan gjaldmiðil fari svo að evrópska myntbandalagið sundrist.

Þegar hafa 583 tonn af gulli verið flutt frá New York og París og gerir þýski seðlabankinn ráð fyrir að helmingur gullsins verði kominn til Frankfurt fyrir lok þessa árs. Er það nokkrum árum fyrr en fyrri áætlanir gerðu ráð fyrir.

Þær gullbirgðir sem enn eru utan Þýskalands deilast nú milli Alríkisbanka New York og Seðlabanka Englands. „Við höfum átt margar viðræður um Donald Trump Bandaríkjaforseta, varðandi áhrif á fjármálastefnu, þjóðhagfræði og fleira, en við treystum  Seðlabanka Bandaríkjanna,“ hefur Reuters eftir Carl-Ludwig Thiele, stjórnarmanni í seðlabankaráðinu.

„Trump er ekki kveikjan að umræðu um geymsluna í New York,“ sagði hann.

Þá væru engar áætlanir uppi um að flytja restina af gullforðanum heim til Þýskalands og úrsögn Breta úr ESB breyti engu um geymslu á 432 tonnum af þýska gullforðanum í Bretlandi. Þá verða 1.236 tonn áfram geymd í New York og 374 tonn í París.

mbl.is

Bloggað um fréttina

  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK