70% samdráttur hjá Ivönku fyrir kosningar

Ivanka Trump og eiginmaður hennar Jared Kushner. Vörulína Ivönku Trump …
Ivanka Trump og eiginmaður hennar Jared Kushner. Vörulína Ivönku Trump hefur selst illa frá því skömmu fyrir forsetakosningarnar. AFP

Sala á vörulínu Ivönku Trump, dóttur Donald Trumps Bandaríkjaforseta, í stórverslanakeðjunni Nordstrom dróst saman um tæpan þriðjung á síðasta fjárhagsári. Var samdrátturinn áberandi mestur vikurnar áður en Trump var kjörinn forseti, að því er dagblaðið Wall Street Journal greinir frá.

Nordstrom tilkynnti nú í vikunni að verslanakeðjan hefði ákveðið að hætta að selja vörulínu forsetadótturinnar. Trump lýsti í kjölfarið óánægju sinni á Twitter og sagði Nordstrom koma illa fram við dóttur sína.

Sears og Kmart hætta líka með Trump

Vörulína Ivönku Trump er þó ekki ein um að vera tekin úr sölu, því bandarísku verslanakeðjurnar Sears og Kmart hafa tekið húsganga- og heimilislínuna Trump Home úr sölu hjá sér, til að gefa söluvænlegri hlutum meira rými að því er Reuters hefur eftir talsmanni verslananna.

Ivanka Trump-skartgripalínan er til sýnis og sölu í Trump-turninum í …
Ivanka Trump-skartgripalínan er til sýnis og sölu í Trump-turninum í New York. Lítil eftirspurn er hins vegar eftir vörunum núna og dróst salan saman um 26% í janúar. AFP

Wall Street Journal vitnaði í söluupplýsingar Nordstrom sem ekki hafa verið gerðar opinberar, en sem sýna að salan á línu Ivönku Trump var 70% minni þrjár síðustu vikurnar í október í fyrra miðað við sama tíma árið áður. Bandarísku forsetakosningarnar voru haldnar 8. nóvember.

Nordstrom neitaði að veita fjölmiðlum sölutölur fyrir Trump-línuna, en hagnaður fyrirtækisins dróst saman um rúmar 20 milljónir dollara milli ára.

Conway sæti viðurlögum fyrir agabrot

Forsetinn var ekki einn um að lýsa yfir stuðningi við viðskipti dóttur sinnar, því einn helsti ráðgjafi Trump í Hvíta húsinu, Kellyanne Conway, hefur verið sökuð um að brjóta siðareglur eftir að hún hvatti áhorfendur í viðtali við Fox-sjónvarpsstöðina til að kaupa línu Ivönku og sagði hún þar um „ókeypis auglýsingu“ að ræða.

Repúblikaninn Ja­son Chaf­fetz, sem er formaður eft­ir­lits­nefnd­ar banda­ríska þings­ins, tilkynnti á fimmtudag að hann hefði farið þess á leit við siðanefnd þingsins að hún tæki yfirlýsingar Conway til skoðunar og mælti með því að hún væri látin sæta viðurlögum fyrir agabrot ef ástæða væri til.

Skór úr línu Ivönku Trump eru nú á útsölu í …
Skór úr línu Ivönku Trump eru nú á útsölu í stórversluninni Century 21 í New York City. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK