Vöxtur erlendrar kortaveltu ekki verið minni frá því að mælingar hófust

Í maí var samdráttur í nokkrum flokkum erlendrar kortaveltu. Ber …
Í maí var samdráttur í nokkrum flokkum erlendrar kortaveltu. Ber þar helst að nefna verslun en í heild dróst greiðslukortavelta verslunar saman um 4,7% frá fyrra ári, úr 2,3 milljörðum króna í maí 2016 í 2,2 milljarða króna í maí síðastliðnum. mbl.is/Árni Sæberg

Erlend greiðslukortavelta nam 21,3 milljörðum króna í síðasta mánuði samanborið við 19,9 milljarða í maí í fyrra samkvæmt samantekt Rannsóknarseturs verslunarinnar. Hlutfallsvöxtur frá fyrra ári er því um 7,1% og hefur ekki verið minni frá því RSV hóf söfnun hagtalna um kortaveltu erlendra ferðamanna árið 2012.

Í krónum jókst kortaveltan um 1,4 milljarða frá maí í fyrra. „Meginástæðan fyrir minni vexti kortaveltu nú er vafalítið sterkt gengi krónunnar,“ segir í samantekt RSV.

Kortavelta í gjöfum og minjagripum dróst saman um 18,9%

Í maí var samdráttur í nokkrum flokkum erlendrar kortaveltu. Ber þar helst að nefna verslun en í heild dróst greiðslukortavelta verslunar saman um 4,7% frá fyrra ári, úr 2,3 milljörðum króna í maí 2016 í 2,2 milljarða króna í maí síðastliðnum. Kortavelta í gjafa- og minjagripaverslun dróst saman um 18,9%, fataverslun dróst saman um 5,9%, tollfrjáls verslun um 7,4% og önnur verslun um 10,9%.

Dagvöruverslun var eini flokkur verslunar þar sem erlend kortavelta jókst í mánuðinum, um 12,8% frá sama mánuði í fyrra. Meðal annarra flokka kortaveltunnar sem drógust saman frá fyrra ári eru bílaleigur en erlend greiðslukortavelta þeirra var 0,6% lægri í maí samanborið við sama mánuð í fyrra og var 1,7 milljarðar í maí síðastliðnum.

Jókst mest í flokki farþegaflutninga

Mest jókst kortavelta í maí í flokki farþegaflutninga, um 22,7% eða um 852 milljónir frá sama mánuði í fyrra. Sem fyrr er vakin athygli á því að hluti erlendrar starfsemi innlendra flugfélaga er meðtalin, en farþegaflug er langstærsti einstaki hluti farþegaflutninga í erlendri greiðslukortaveltu. Næst mestur var vöxtur kortaveltunnar í flokki ýmissar ferðaþjónustu en undir flokkinn fellur þjónusta ferðaskrifstofa og ýmsar skipulagðar ferðir. Velta þess flokks jókst um 13,2% frá maí 2016 og nam 3,5 milljörðum króna í maí síðastliðnum. Erlend greiðslukortavelta í gistiþjónustu jókst um 8,7% í maí síðastliðnum og nam 3,9 milljörðum króna samanborið við 3,6 milljarða í sama mánuði fyrir ári. Vöxtur kortaveltu veitingastaða var heldur minni eða 0,9% frá fyrra ári og nam í maí síðastliðnum 2.044 milljónum króna, 18 milljónum króna meira en í sama mánuði í fyrra.

RSV bendir á að gengi krónunnar hefur styrkst mjög hressilega síðasta árið og var 23% hærra í maí síðastliðnum borið saman við sama mánuð í fyrra ef miðað er við viðskiptavog  SÍ. Gengi krónunnar hefur styrkst mis-mikið gagnvart viðskiptagjaldmiðlum á tímabilinu en sem dæmi var krónan 35% sterkari gagnvart sterlingspundi en 20% sterkari gagnvart Bandaríkjadal samanborið við maí í fyrra.

Ferðamenn með minni kaupmátt

Í mars greindi RSV frá því að ofan á þá gengisstyrkingu sem þá hafði raungerst hefði verðlag ýmissa ferðaþjónustuafurða hækkað í undangengnum febrúarmánuði samanborið við febrúar í fyrra. Í maí er verðhækkun frá fyrra ári töluvert hóflegri en þá.

„Sem dæmi hækkaði verð gistiþjónustu um 1% í íslenskum krónum frá maí í fyrra, verðlag veitingahúsa um 4% og verð pakkaferða innanlands um 3% samkvæmt verðmælingu Hagstofunnar. Þrátt fyrir að verðhækkanir frá fyrra ári séu hóflegar bætast þær engu að síður við styrkingu krónunnar og endurspeglast í minni kaupmætti erlendra ferðamanna hérlendis,“ segir í samantekt RSV en hana má sjá í heild hér. 

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK