Beyoncé þénaði langmest

Beyoncé tróð m.a. upp á Super Bowl á síðasta ári.
Beyoncé tróð m.a. upp á Super Bowl á síðasta ári. AFP

Bandaríska söngkonan Beyoncé þénaði 62,1 milljón Bandaríkjadala á síðasta ári, eða sem nemur 6,4 milljörðum íslenskra króna, og trónir á toppi Billboard yfir tekjuhæstu tónlistarmennina árið 2016.

Á listanum má sjá vinsæla tónlistarmenn eins og Drake, Adele, Justin Bieber og Coldplay en líka eldri kempur eins og Paul McCartney, Barböru Streisand og Elton John. Tekjuhæstu tónlistamennirnir eiga flestir það sameiginlegt að hafa þénað mest á tónleikaferðalögum á síðasta ári.

Stærstur hluti tekna Beyoncé á síðasta ári kom einmitt frá tónleikaferðalagi hennar, Formation tour, eða 54,7 milljónir Bandaríkjadala. 1,2 milljónir miða seldust á tónleikaferðalagið og námu tekjur þess 161 milljón Bandaríkjadala. Þá þénaði Beyoncé 6,2 milljónir Bandaríkjadala í stefgjöld en hún gaf út plötuna Lemonade í apríl á síðsta ári. 

Í öðru sæti listans má sjá gömlu kempurnar í Guns N‘Roses sem þénuðu þó mun minna en Beyoncé eða 42,3 milljónir Bandaríkjadala. Rétt eins og hún þénaði sveitin mest af tónleikaferðalagi þeirra á síðasta ári, eða 40,4 milljónir Bandaríkjadala.

Axl Rose, söngvari Guns N´Roses.
Axl Rose, söngvari Guns N´Roses. AFP

Bruce Springsteen er í þriðja sæti og þénaði hann 42,2 milljónir Bandaríkjadala, þar af 40,9 milljónir vegna tónleikaferðalaga.

Kanadíski rapparinn Drake þénaði 37,3 milljónir Bandaríkjadala og er í fjórða sæti listans. Hann fékk 23,7 milljónir Bandaríkjadala í stefgjöld og tæpar 14 milljónir Bandaríkjadala fyrir tónleikaferðalög.

Breska söngkonan Adele er í fimmta sæta listans en hún þénaði 37 milljónir Bandaríkjadala. Hún seldi plötur fyrir 4,9 milljónir Bandaríkjadala en þénaði langmest á tónleikaferðalögum eða 28,3 milljónir Bandaríkjadala.

Adele á tónleikum.
Adele á tónleikum. AFP

Sömu sögu má segja um bresku sveitina Coldplay sem þénaði 32,3 milljónir Bandaríkjadala á síðasta ári, þar af 26 milljónir fyrir tónleikaferðalög. Sveitin er í sjötta sæti listans.

Í því sjöunda má finna kanadíska söngvarann Justin Bieber. Hann þénaði 30,5 milljarða Bandaríkjadala, þar af 25,6 milljónir fyrir tónleikaferðalög. Þá þénaði hann 2 milljónir í plötusölu.

Justin Bieber á sviði í Kórnum á síðasta ári.
Justin Bieber á sviði í Kórnum á síðasta ári. mbl.is/Ófeigur Lýðsson
mbl.is
Svæði

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir