Fátt um erlenda fjárfesta á íbúðamarkaði

Víða um heim glíma borgaryfirvöld við það að erlendir fjárfestar kaupi upp íbúðir í stórum stíl, þrýsti þannig verðinu upp og skilji þær jafnvel eftir auðar. Fasteignasalar á Ísland eru á einu máli um að hér sé umfangið heldur lítið. 

Um miðja síðustu viku var greint frá því að Nýja Sjáland hefði tekið upp á því að banna útlendingum að kaupa þær íbúðir sem eru til staðar í landinu í því skyni að stemma stigu við hækkandi húsnæðisverði. 

Nýja Sjáland er ekki einsdæmi. Fyrir rúmu ári innleiddu borgaryfirvöld í Vancouver í Kanada 15% skatt á erlenda fjárfestingu á húsnæðismarkaði í sama tilgangi en það hafði í för með sér að fjármagnið flæddi til Seattle í Bandaríkjunum að því er kemur fram í frétt Fortune

„Ég hef ekki skynjað að útlendingar leiti að íbúðum í fjárfestingarskyni, frekar að þeir séu komnir til að vera,“ segir Þóra Birgisdóttir, framkvæmdastjóri Borgar fasteignasölu. „Þetta er aðallega fólk sem býr hérna tímabundið vegna starfa eða kýs að dvelja hér í tvo eða þrjá mánuði á ári.“

Í sama streng tekur Stefán Hrafn Stefánsson, sölustjóri Stakfells fasteignasölu. 

„Við höfum ekki orðið vör við neitt stórfellt í þessum efnum en vissulega hafa einhverjir erlendir ríkisborgarar verið að kaupa sér lúxusíbúðir og íbúðir til að eiga sjálfir hér,“ segir Stefán. „En þetta er ekki í stórum stíl, ég held ég geti fullyrt það. Eins og þetta snýr að okkur hef ég ekki séð mikið af þessu.“

Ekki teljandi áhrif á verð

Björn Þóri Sigurðsson, framkvæmdastjóri og eigandi Fasteignasölu Reykjavíkur, segir að þó að fasteignasalan fái af og til fyrirspurnir af þessum toga hafi umfangið ekki teljandi áhrif á verðmyndun. 

„Erlendu aðilarnir sem kaupa á Íslandi í dag eru flestir búsettir hér. Í hruninu var töluvert um að útlendingar tækju yfir yfirskuldsettar eignir,“ segir Björn Þórir. „En það er ekki mikið um þetta, alla veganna ekki hjá okkur.“

mbl.is

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir