Viðsnúningur í bandarísku kauphöllinni

Frá kauphöllinni í New York.
Frá kauphöllinni í New York. AFP

Viðskipti í kauphöllinni í New York gengu töluvert betur í dag miðað við gærdaginn en þá lækkaði Dow Jones-vísitalan um 4,6%, sem var mesta lækkun í tæpan áratug. Dagurinn í dag var mjög sveiflukenndur en Dow Jones hækkaði um 570 stig, eða 2,3%, og endaði í 24.912,77 stigum.

Þrátt fyrir þetta hefur Dow Jones lækkað um 6,4% frá 26. janúar þegar vísitalan náði hæstu hæðum.

S&P 500-vísitalan hækkaði um 1,7% og stendur nú í 2.695,14 stigum. Nasdaq-vísitalan hækkaði um 2,1% og er nú 7.115,88 stig. 

Chris Low, sérfræðingur hjá FTN Financial, segir að mönnum hafi verið mjög létt í kauphöllinni í dag, þannig hafi andrúmsloftið verið. Menn munu hins vegar ekki gleyma því sem gerðist í gær þegar Dow Jones-vísitalan féll mjög hratt, en á einum tímapunkti lækkaði hún um 700 stig á aðeins örfáum mínútum. 

Mönnum leist ekki á blikuna eftir hrunið í kauphöllinni í …
Mönnum leist ekki á blikuna eftir hrunið í kauphöllinni í gær. AFP

Verð á hlutabréfum í bandarískum stórfyrirtækjum á borð við Apple, Home Depot og Chevron sóttu í sig veðrið í dag, en hækkunin hjá þessum fyrirtækjum nam um 4%.

Margir sérfræðingar á fjármálamarkaði segjast taka eftir því að fjárfestar hafi áhyggjur af því að seðlabanki Bandaríkjanna stefni á að hækka stýrivexti og að verðmat sé of hátt. 

„Markaðurinn er að öllum líkindum að reyna að finna botninn,“ segir Bill Lynch, sem stýrir fjárfestingum hjá Hinsdale Associates. „Dagurinn í dag hefur verið sérstaklega sveiflukenndur, menn hafa verið að kaupa og selja á neikvæðum og jákvæðum svæðum í allan dag. Þetta er eins og jó-jó.“

En í kjölfar dýfunnar í gær sneru fjárfestar aftur á markaðinn til að nýta þau tækifæri sem gáfust sem leiddi til hækkunar á hlutabréfaverði í dag. 

Jerome Powell sór embættiseið sem nýr seðlabankastjóri Bandaríkjanna í gær. …
Jerome Powell sór embættiseið sem nýr seðlabankastjóri Bandaríkjanna í gær. Fjárfestar bíða nú spenntir eftir því að sjá með hvaða hætti hann muni beita sér. AFP

„Hagkerfið er enn sterkt,“ segir Lynch og bætir við að hann sjái ekki fyrir sér að von sé á miklum samdrætti á næstunni. 

Low tekur undir það að heilt yfir séu efnahagshorfurnar jákvæðar, en hann segir að fjárfestar telji mögulegt að frekari sveiflur á markaði séu fram undan. 

Lykilspurningin sé sú hvernig Jerome Powell, nýr seðlabankastjóri Bandaríkjanna, og peningastefnunefnd bandaríska seðlabankans muni bregðast við fari verðbólgan á flug. 

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK