Hagnaður Íslandsbanka 7 milljörðum minni

mbl.is/Ófeigur

Íslandsbanki hagnaðist um 13,2 milljarða króna á síðasta ári samanborið við 20,2 milljarða árið áður. Er munurinn sagður skýrast af einskiptistekjum af sölu Borgunar í hlutum í Visa Europe árið 2016. 

Stjórn bankans leggur til að 13 milljarðar króna af hagnaði ársins 2017 verði greiddar í arð til hluthafa

Þetta kemur fram í nýbirtu uppgjöri Íslandsbanka. Hagnaður af reglulegri starfsemi bankans var 13,8 milljarðar samanborið við 15,1 milljarð árið 2016. Arðsemi eigin fjár var 7,5% á árinu og lækkaði niður úr 10,2% frá fyrra ári. 

Hreinar vaxtatekjur voru 30 milljarðar og lækkuðu um 5,7% á milli ára. Vaxtamunur nam 2,9%. Hreinar þóknunartekjur voru 13,8 milljarðar og hækkuðu lítillega á milli ára, eða um 0,2%. 

Útlán til viðskiptavina jukust um 9,8% og hlutfall lána í vanskilum umfram 90 daga var 1,0%. Eiginfjárhlutfall var 24,1% og eiginfjárhlutfall þáttar 1 (CET1) var 22,6% í árslok. 

mbl.is

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir