Vissi Danske Bank af peningaþvættinu?

Danske bank. Útibú bankans í Eistlandi var notað fyrir peningaþvætti. …
Danske bank. Útibú bankans í Eistlandi var notað fyrir peningaþvætti. Nú hefur komið í ljós að einn yfirmanna bankans varaði stjórnendur við þessu þegar árið 2013. mbl.is/Hjörtur

Stjórn Danske Bank var árið 2013 þegar gert grein frá áhyggjum eins yfirmanna bankans af peningaþvætti, sem áður hefur verið greint frá að útibú bankans í Eistlandi hafi verið notað fyrir. Þetta kemur fram í dagblaðinu Berlingske Tidende í dag, en í skýrslunni sem blaðið hefur undir höndum kemur fram að bankinn hafi væntanlega gerst sekur um lögbrot og að hann aðstoðað við peningaþvætti, en ekki verið grunlaus um framferðið líkt og áður hefur verið haldið fram.

Jakob Dedenroth Bernhoft, sérfræðingur í peningaþvætti og forstjóri lögfræðiráðgjafarstofunnar revisorjura.dk segir það gera málið mun alvarlegra fyrir Danske Bank.

„Það eru miklu alvarlegri ásakanir,“ segir Bernhoft í samtali við danska ríkisútvarpið DR. Skýrslan bendi ekki lengur til þess að bankinn hafi blekktur. Heldur sé þetta nú spurning um hver hafi vitað hvað og hver beri ábyrgðina á því að þetta hafi geta gerst.

Í gögnunum sem Berlingske hefur undir höndum kemur fram að meðal þeirra meintu eigenda fyrirtækja sem voru í viðskiptum við bankann og sem stóðu að grunsamlegum greiðslum sé kaupsýslumaðurinn og stjórnmálamaðurinn Ígor Pútín, frændi Vladimír Pútíns Rússlandsforseta.

Meðal viðskiptavina voru einnig einstaklingar sem sagðir eru hafa verið í nánum tengslum við FSB, rússnesku leyniþjónustuna.

„Það veitir málinu líka nýja vinkla hvað utanríkispólitík varðar,“ segir Bernhoft. „Þetta snýst ekki bara um einhverja glæpamenn. Allt í einu eru komin fram tengsl við æðstu ráðamenn í Rússlandi og þar sem eitthvað skuggalegt virðist vera á seyði í tengslum við þessar færslur.“

Kvaðst Bernhoft telja þessar nýju upplýsingar þess eðlis að eistnesk yfirvöld og mögulega dönsk yfirvöld líka þurfi að taka málið til rannsóknar.

„Eistnesk yfirvöld hafa eftirlitskyldu í málinu, en Danske Bank í Eistlandi er hluti af Danske Bank. Málið hefur fengið á sig skuggalegan blæ og þess vegna er ástæða fyrir dönsk yfirvöld, til að mynda fjármálaeftirlitið, að skoða hvort að þetta þurfi að rannsaka betur.“

 Í skriflegum svörum Danske Bank til Berlingske sagði bankinn málið til skoðunar innanhúss og að menn þar muni ekki tjá sig frekar um málið að svo stöddu.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK