Stærsta peningaþvættismál Evrópu

Upp komst um peningaþvætti í útibúi Danske Bank á Eistlandi …
Upp komst um peningaþvætti í útibúi Danske Bank á Eistlandi árið 2017. Ný gögn varpa skýrara ljósi á helstu þátttakendur. AFP

Tvö þúsund leynileg skjöl frá Bandaríkjunum, sem lekið hefur verið í fjölmiðla, sýna hvernig óheyrilegar fjárhæðir úr ólöglegri starfsemi hafa gengið milli bankastofnana um heim allan og verið þvættaðar. Gögnunum, sem kölluð eru FinCen Files, var lekið til síðunnar Buzzfeed News í Bandaríkjunum en þaðan hafa þau komist í hendur Alþjóðasambands rannsóknarblaðamanna, ICIJ. Þau innihalda einkum skjöl sem bankar sendu til bandarískra yfirvalda þar sem áhyggjum er lýst af framferði viðskiptavina.

Gögnin varpa meðal annars skýrara ljósi á peningaþvættismál norrænu bankanna Danske Bank og Nordea.

Danska blaðið Berlingske greindi fyrst frá því árið 2017, í samvinnu við rússneskt dagblað, að grunsamlegar færslur upp á 200 milljarða evra hefðu flætt frá Eistlandi, Rússlandi, Lettlandi og víðar í gegnum Danske Bank í Eistlandi frá árinu 2007 til 2015. Bankinn hefði ekki fylgt reglum um varnir gegn peningaþvætti og jafnvel vitað af peningaþvættinu.

Hefur viðskiptatímaritið Forbes lýst málinu sem stærsta peningaþvættismáli Evrópu.

Lögregla í Eistlandi handtók í desember 2018 tíu starfsmenn útibúsins, og var bankanum gert að loka útibúinu ári síðar. Þá varð málið til þess að Thomas Borgen, bankastjóri Danske Bank, sagði af sér. Danska þingið hefur síðar hert viðurlög við peningaþvætti til muna.

Í nýju gögnunum fást upplýsingar um suma viðskiptavinina:

 • Vopnasmygl
  Félagið Ostwest Alliance Ltd. og SP Trading Ltd. áttu í samstarfi við úkraínska vopnasmyglarann Jury Lunov. Samkvæmt gögnum frá öryggisráði Sameinuðu þjóðanna stóðu Lunov og SP Trading að baki vopnasmygli frá Norður-Kóreu árið 2009, sem braut gegn viðskiptaþvingunum Sameinuðu þjóðanna gegn landinu.
 • Eiturlyfjahringir
  Fyrirtækin Aronica Alliance Ltd. og Bolzana LLP sendu peninga til félagsins Gurgen House FZCO, en bandarísk yfirvöld segja það síðastnefnda hafa tengingu við alþjóðlega glæpahringinn Brothers' Circle. Samtökin hafa staðið fyrir verulegri fíkniefnasölu í Evrópu og Asíu og sæta margir lykilmeðlima viðskiptabanni í Bandaríkjunum.
 • Peningaþvætti
  Félagið Hilux Services LP sendi ásamt fleiri ónafngreindum viðskiptavinum peninga til félagsins Mazaka General Trading. Mazaka er, að sögn bandarískra yfirvalda, undir stjórn alþjóðlegs peningaþvættisnets sem stjórnað er af Pakistananum Altaf Khanani og hefur þvættað peninga fyrir hryðjuverkasamtök og eiturlyfjahringi. Khanani var á sínum tíma dæmdur í 68 mánaða fangelsi í Bandaríkjunum fyrir peningaþvætti

 Í gögnunum fást einnig staðfest viðskipti sem Berlingske hefur frá árinu 2017 greint frá, líkt og skilmerkilega er farið yfir í fréttaskýringu blaðsins:

 • Frændi Pútíns
  Hópur félaga, þar á meðal Lantana Trade LLP og Chadborg Trade LLP, hafði tengsl við rússneska bankann Promsberbank sem rússnesk yfirvöld létu loka vegna gruns um alvarlega misbresti í starfsemi. Igor Pútín, frændi Vladimirs Pútíns Rússlandsforseta, sat í stjórn þess banka. Nokkur af félögunum eru talin hafa þvættað peninga í bæði Danske Bank og Deutsche Bank.
 • Ólígarkar
  Hópur félaga með tengsl við rússneska ólígarka framkvæmdi millifærslur í gegnum Danske Bank og Swedbank sem báru skýr merki peningaþvættis.
 • Fyrrverandi forseti Úkraínu
  Hópur félaga á borð við Worldman Sales LLP og Vento-Silk Corporation LP framkvæmdi millifærslur til félags að nafni Folkbrook Incorporated. Úkraínsk stjórnvöld segja hið síðastnefnda vera undir stjórn Viktors Janukovitj, fyrrverandi forseta landsins, en hann hefur verið dæmdur fyrir peningaþvætti og landráð.

Samantekt Berlingske

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK