Hækka sveiflujöfnunaraukann enn frekar

Á fundi Fjármálastöðugleikaráðs fyrir helgi var samþykkt að beina tilmælum til Fjármálaeftirlitsins um að sveiflujöfnunarauki yrði hækkaður. Sú hækkun mun taka gildi ári eftir ákvörðun Fjármálaeftirlitsins.

Þetta kemur fram í frétt á vef Fjármálaeftirlitsins. Þar segir að tilmælin feli í sér að hækka sveiflujöfnunaraukann um 0,5% og verður hann þá 1,75%. Á síðasta ári var hann hækkaður um 0,25%. 

Þá voru samþykkt tilmæli um óbreytta eiginfjárauka vegna kerfislegs mikilvægis fjármálafyrirtækja og kerfisáhættu, en samþykkt að lengja aðlögunartíma innlánsstofnana, sem ekki teljast kerfislega mikilvægar, að síðarnefnda aukanum. Þær þurfa nú að uppfylla 3% eiginfjárauka fyrir 1. janúar 2020 í stað 1. janúar 2019. 

Sveiflujöfnunarauki leggst ofan á eiginfjárkröfur sem gerðar eru til viðskiptabanka og er hugsaður sem þjóðhagsvarúðartæki. 

Í nýlegri skýrslu Seðlabanka Íslands um fjármálastöðugleika kom fram að merki væru um vaxandi áhættusækni og að aukinnar áhættu sé farið að gæta í fjármálakerfinu. Áhættan er þó sögð vera innan hóflegra marka þar sem ytri aðstæður hafi verið fjármálafyrirtækjunum hagfelldar undanfarin misseri. 

mbl.is

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir