Amerískur „diner“ opnaður á Egilsstöðum

Björn Berg Pálsson, rekstrarstjóri Skálans Diner.
Björn Berg Pálsson, rekstrarstjóri Skálans Diner. mbl.is

Bananasplitt og New Orleans-vængir. Glymskratti og mjólkurhristingur. Gamli Shell-skálinn á Egilsstöðum hefur vikið fyrir amerískum „diner“ þar sem tónlist sjötta áratugarins hljómar og andi liðinna tíma svífur yfir vötnum hvort sem er í litríkum innréttingunum eða á matseðlinum. Eigendurnir halda mikilli tryggð við fyrirmyndir staðarins sem þeir sækja til Bandaríkjanna en íslenskra áhrifa gætir þó einnig. Þannig er hægt að gæða sér á plokkfiski og fá sér svo amerískar pönnukökur í eftirrétt.

„Þetta er svona ekta amerískur diner, eins og klipptur út úr Grease-kvikmyndinni,“ segir Björn Berg Pálsson, rekstrarstjóri Skálans Diner. Hann segir staðinn þann fyrsta sinnar tegundar á Íslandi. Húsnæðið, sem áður hýsti Shell-skálann, hafi verið gert allt að því fokhelt og svo innréttað algjörlega upp á nýtt eftir hugmyndum eigenda og stjórnenda.

Innréttingar Skálans Diner eru litríkar.
Innréttingar Skálans Diner eru litríkar. mbl.is

Skálinn Diner er í eigu 701-hótelkeðjunnar. Björn segir að hugmyndin að staðnum sé sótt til þess besta sem þekkist í „diner-menningunni“ vestanhafs.

„Konseptið er tekið alla leið,“ segir hann. Sætin séu með rauðu og hvítu áklæði, gólfin svört og hvít og veggirnir sægrænir. Að öllu sé hugað, m.a. ljósunum í loftinu.

„Og svo er auðvitað spiluð fiftís-tónlist,“ segir Björn en bætir við að stundum fái þó tónlistin úr Grease að hljóma enda átti sú mynd að gerast á þeim tíma. „Og við erum auðvitað með glymskratta! Gestir geta reyndar ekki valið tónlistina sem úr honum hljómar, það yrði of mikið álag á hann,“ segir Björn og hlær.

Að sjálfsögðu er glymskratta að finna á staðnum.
Að sjálfsögðu er glymskratta að finna á staðnum. mbl.is

Á matseðlinum er sem fyrr segir hægt að velja á milli bandarískra og íslenskra rétta og úrvalið af ís er sérlega mikið. Verðinu er að sögn Björns stillt í hóf og sem dæmi kostar réttur dagsins, sem samanstendur af aðalrétti, súpu og kaffi, 1.850 krónur.

Skálinn Diner var opnaður fyrir tæpum tveimur vikum og hefur þegar vakið mikla athygli. Heimamenn hafa verið sérlega forvitnir en gestirnir koma þó margir lengra að. „Fólk kemur til okkar alls staðar að af Austfjörðum,“ segir Björn. „Við áttum von á því að þetta yrði vinsælt en viðtökurnar hafa verið langt fram úr okkar björtustu vonum. Við höfum þurft að fá neyðarsendingar af hráefni í matinn okkar vegna eftirspurnar.“

Björn segir áhugavert að stærstu kúnnahóparnir hingað til séu ungt fólk annars vegar og svo aftur eldra fólk sem vilji koma til að rifja upp gamla tíma í mat og tónlist. „Við erum mjög spennt fyrir sumrinu,“ segir Björn. Hann segir að nokkrir bandarískir ferðamenn hafi þegar komið á staðinn og skilið eftir skilaboð á Facebook-síðunni um hversu vel þeim hafi líkað. „Þeir elska þetta,“ segir Björn.

Fjölmargar bragðtegundir af ís eru í boði.
Fjölmargar bragðtegundir af ís eru í boði. mbl.is
mbl.is

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir