Eini rúbluhraðbankinn tæmdur

Mikil röð myndaðist við hraðbankann enda fjöldi á leið út.
Mikil röð myndaðist við hraðbankann enda fjöldi á leið út. mbl.is/Valgarður Gíslason

„Þegar við pöntuðum fyrstu sendinguna þá renndum við svolítið blint í sjóinn því við vissum ekki hver eftirspurnin yrði og við töldum að þessi fyrsta sending myndi duga,“ segir Rúnar Pálmason, upplýsingafulltrúi hjá Landsbankanum sem er með eina hraðbankann á landinu þar sem hægt er að fá rússneskrar rúblur. Landsbankinn setti þann 28. maí upp rúbluhraðbanka í Smáralind í tilefni af heimsmeistaramótinu í fótbolta í Rússlandi. Seðlarnir í hraðbankanum kláruðust 11. júní og kom eftirspurn Íslendinga eftir rúblum bankanum í opna skjöldu.

„Við vorum jafnvel búnir að velta fyrir okkur hvort við þyrftum að skila hluta til birgisins aftur en eftirspurnin varð síðan bara mun meiri en við reiknuðum með og hraðari en við áttum von á og bankinn tæmdist tvisvar.“

Skjót viðbrögð þurfti til að koma rúblum í hraðbankann að nýju og hafði Landsbankinn samband við seðlabirgja. „Við urðum þarna uppiskroppa með rúblur og það tekur svolítinn tíma að fá þetta sent frá birginum erlendis. Okkur þykir það leitt en nú erum við á þriðju sendingunni og hún dugar ennþá. Við teljum að hún eigi að duga en slæmu fréttirnar eru náttúrlega þær að birgirinn okkar erlendis á ekki fleiri rúblur á lager.“ 

Ekki auðfengin mynt

Hraðbanki Landsbankans er sem fyrr segir eini staðurinn þar sem hægt er að nálgast rússneskar rúblur en Morgunblaðið hafði samband við Arion banka og Íslandsbanka. „Venjulega erum við ekki með rúblur en vegna þess að við erum einn af aðalstyrktaraðilum landsliðsins og KSÍ rann okkur blóðið til skyldunnar og við settum þennan rúbluhraðbanka í Smáralind svo fólk sem er á leiðinni til Rússlands gæti nálgast reiðufé í rússneskri mynt,“ segir Rúnar. 

Hann segir allar líkur á að rúblurnar muni duga yfir riðlakeppnina hjá Íslandi og áfram inn í úrslitakeppnina ef þess er þörf, sem bankinn er bjartsýnn á. 

Flestar úttektir á fimmtudegi

Af öryggisástæðum gefur Landsbankinn ekki upp hversu mikið af rúblum hefur verið tekið úr hraðbankanum en úttektir náðu hámarki 14. júní þegar 397 úttektir voru úr hraðbankanum. Landsbankinn bendir á að þegar HM í fótbolta lýkur geta Íslendingar skipt rúblunum í íslenskar krónur að nýju hjá bankanum. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK