Minni velta með bílaleigubíla

mbl.is/Sigurður Bogi

Heldur hefur hægt á aukningu í veltu í ferðaþjónustu frá því sem verið hefur undanfarin ár. Velta í bílaleigu minnkaði aðeins milli ára og var 2,5% lægri í mars–apríl 2018 en á sama tímabili 2017. Þetta kemur fram í nýjum upplýsingum frá Hagstofu Íslands.

Velta í virðisaukaskattskyldri starfsemi, fyrir utan lyfjaframleiðslu, var 4.322 milljarðar á tímabilinu maí 2017 til apríl 2018 sem er 6,8% hækkun miðað við næstu 12 mánuði þar á undan. Á tímabilinu mars–apríl 2018 var veltan 694 milljarðar eða 7,2% hærri en sömu mánuði árið áður.

Almennt eykst velta í einkennandi greinum ferðaþjónustu en aukningin er ekki eins hröð og hún hefur verið undanfarin ár. Velta í bílaleigu minnkaði aðeins milli ára og var 2,5% lægri í mars–apríl 2018 en á sama tímabili 2017. Velta þjónustu sem ekki er virðisaukaskattskyld er ekki talin með hér. Dæmi um slíka þjónustu er áætlunarflug innanlands og akstur leigubifreiða. Til ársloka 2015 var þjónusta ferðaskrifstofa, hestaleiga og allir farþegaflutningar innanlands undanþegin virðisaukaskatti.

Verslun með fisk komin í fyrra horf

Mesta hækkun milli ára var í heild- og umboðsverslun með fisk og var veltan í mars–apríl 2018 sú sama og sömu mánuði árið 2017. Vegna verkfalls sjómanna var velta í þessari grein óvenjulág fyrri hluta árs 2017.

Minni bílasala en meiri viðgerðir

Sala á vélknúnum ökutækjum var 10% lægri á tímabilinu mars–apríl 2018 en sömu mánuði árið á undan. Á sama tímabili jókst velta í bifreiðaviðgerðum og viðhaldi um 16%. Minni bílasölu má rekja til þess að bílaleigur keyptu mun færri nýja bíla í vor en fyrir ári.

Upplýsingatækni og fjarskipti

Velta í upplýsingatækni og fjarskiptum jókst um 15% milli ára, aðallega vegna aukningar í hugbúnaðarframleiðslu og gagnahýsingu.

Meiri umsvif fasteignafélaga

Virðisaukaskattskyld velta fasteignafélaga jókst um 13% milli ára. Leiga íbúðarhúsnæðis er ekki virðisaukaskattskyld og því ekki talin með hér, segir í frétt Hagstofu Íslands.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK