Verðbólguskuggar tilbúnir að lyftast

mbl.is/Eggert

Þrátt fyrir að sumri sé tekið að halla í íslensku efnahagslífi er enn bjart yfir. Enn mun þó reimt á Kili og verðbólguskuggar tilbúnir að lyftast og líða um, segir í uppfærðri hagspá greiningardeildar Arion banka.

Þar kemur einnig fram að þrátt fyrir áframhaldandi útflutningsvöxt telji bankinn að krónan sé of sterk um þessar mundir og að til lengra tíma geti hagkerfið ekki staðið undir svona sterku raungengi.

Greiningardeildin gerir ráð fyrir 3% hagvexti í ár og næsta ár, en að talsvert hægi á vextinum þegar líði undir lok spátímans.

Meiri fjárfesting en lakari horfur í ferðaþjónustunni

Heilt yfir hefur spáin tekið litlum breytingum frá því í apríl, enda hafi niðurstöður fyrsta fjórðungs verið í góðu samræmi við væntingar. Mismuninn á spánum fyrir árið í ár má rekja til meiri atvinnuvegafjárfestingar en áður var talið en á móti vega lakari horfur í ferðaþjónustunni. Horfur eru á minni viðskiptaafgangi og verður hann hverfandi á síðari hluta spátímans.

Þá segir, að einkaneyslan verði dráttarklárinn í hagvextinum, studd áfram af launahækkunum og litlu atvinnuleysi. Fjárfesting muni leggja hönd á plóg, sérstaklega íbúðafjárfesting, á meðan útflutningur tekur aftursætið. Verðbólgan muni stíga þegar fram í sækir.

Krónan of sterk

Í spánni veltir greiningardeildin því fyrir sér hversu lengi þrautseigja krónunnar muni endast. Deildin segir, að það sé nær ómögulegt að spá fyrir um gengi gjaldmiðla til skemmri tíma. Því beri að líta á gengisspána sem skoðun bankans á stefnu krónunnar í stað þess að einblína á einstök gildi.

„Til að spá fyrir um gengisþróun til lengri tíma er viðtekin venja að horfa til kaupmáttarjafnvægis. Staðreyndin er sú að Ísland er eitt dýrasta land í heimi. Þrátt fyrir áframhaldandi útflutningsvöxt teljum við að krónan sé of sterk um þessar mundir og að til lengri tíma geti hagkerfið ekki staðið undir svona sterku raungengi. Það er ekki þar með sagt að krónan veikist strax, enda góður gangur í hagkerfinu, viðskiptaafgangur og jákvæðar fréttir að berast af lánshæfi,“ segir í hagspánni. 

Spá óbreyttum stýrivöxtum út árið

Þá kemur fram í spánni að undirliggjandi verðbólguþrýstingur hafi aukist og telur greiningardeildin að sú þróun haldi áfram. Samsetning verðbólgunnar sé að taka breytingum og vegur húsnæðisverð ekki jafnþungt og áður. Á móti komi að innfluttar vörur séu hættar að vega á móti innlendum verðbólguþrýstingi eftir því sem gengisáhrifin fjara út.

„Ekki er hlaupið að því að setja fram stýrivaxtaspá, þar sem framtíð núverandi peningastefnu er óljós. Hvort húsnæðisverð verði tekið út úr VNV, hvort fjármálastöðugleiki trompi verðstöðugleika eða hvort kjölfesta verðbólguvæntinga haldi þegar á hólminn er komið mun allt skipta máli fyrir vaxtaþróun. Við spáum óbreyttum meginvöxtum út árið,“ segir í spánni.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK