Heimurinn óviðbúinn fyrir annað hrun

Dominique Strauss-Kahn, fyrrverandi framkvæmdastjóri Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.
Dominique Strauss-Kahn, fyrrverandi framkvæmdastjóri Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. AFP

Heimurinn er ekki eins vel búinn núna og fyrir tíu árum til að takast á við stórt efnahagshrun. Þetta segir Dominique Strauss-Khan, fyrrverandi framkvæmdastjóri Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (IMF).

Strauss-Khan, sem stjórnaði gjaldeyrissjóðnum þegar efnahagshrunið varð fyrir tíu árum, árið 2008, segir í viðtali við AFP að auknar vinsældir þjóðernispopúlisma víðsvegar um heiminn séu bein afleiðing hrunsins.

Strauss-Khan sagði starfi sínu lausu sem yfirmaður IMF árið 2011 eftir að hafa verið sakaður um að hafa reynt að nauðga herbergisþernu. Ákærurnar voru síðar látnar niður falla. Í einkamáli sem var höfðað í framhaldinu náðist sátt og greiddi hann þernunni um 1,5 milljónir dollara í bætur. Síðar var hann ákærður fyrir hórmang og sýknaður tveimur árum síðar. 

Fjárfestingabankinn Lehman Brothers skilaði inn gjaldþrotabeiðni 15. september 2008.
Fjárfestingabankinn Lehman Brothers skilaði inn gjaldþrotabeiðni 15. september 2008. AFP

Bandaríkjastjórn áttaði sig ekki á hættunni

Spurður hvenær hann hafi áttað sig á að stórt vandmál væri í uppsiglingu segist hann fljótlega eftir að hann hóf störf 1. nóvember 2007 hafa orðið var við að hlutirnir gengju illa.

Hann segir að stjórn Bush, þáverandi Bandaríkjaforseta, hafi ekki áttað sig á hættunni sem stafaði af gjaldþroti fjárfestingabankans Lehman Brothers. Henry Paulson, fyrrverandi fjármálaráðherra Bandaríkjanna, hafi vanmetið afleiðingarnar af gjaldþrotinu. „Að leyfa Lehman að verða gjaldþrota voru alvarleg mistök, sérstaklega vegna þess að aðeins viku síðar urðu þeir að bjarga tryggingafélaginu AIG sem var miklu stærra.“

AFP

Vill strangari reglugerðir

Spurður hvort heimurinn sé betur undirbúinn til að glíma við álíka stórt efnahagshrun núna segir Strauss-Khan svo ekki vera. Hann bætir við að einhver framþróun hafi náðst, þar á meðal varðandi hærra eiginfjárhlutfall banka, en segir það ekki duga til.

„Ímyndið ykkur ef Deutsche Bank lenti skyndilega í vandræðum. Átta prósentin af eiginfjárhlutfallinu sem hann hefur yfir að ráða yrði ekki nóg til að leysa vandann. Sannleikurinn er sá að við erum ekki eins vel undirbúin núna. Reglugerðirnar eru ekki nógu strangar.“

Donald Trump Bandaríkjaforseti.
Donald Trump Bandaríkjaforseti. AFP

Þjóðernispopúlismi bein afleiðing hrunsins

Telurðu að kosning Donalds Trumps í embætti sé afleiðing efnahagshrunsins?

„Já, ég held það. Ég er ekki að segja að það hafi verið ein sérstök ástæða fyrir kjöri Trumps en stjórnmálaástandið í dag er ekki ótengt hruninu sem við gengum í gegnum, bæði í Bandaríkjunum með Trump og í Evrópu,“ segir Strauss-Khan í viðtalinu.

Hann nefnir að þjóðernispopúlisminn sem hefur notið aukinna vinsælda víða um heim sé bein afleiðing hrunsins og hvernig tekist var á við það á árunum 2011 og 2012 með aðgerðum sem áttu eftir að auka ójöfnuð. Allt hafi snerist um að bjarga fjármálakerfinu og ríkasta fólkið hagnast mest á því.

„Þegar eldsvoði verður grípa slökkviliðsmenn inn í og það verður vatn úti um allt. En svo þarftu að þurrka það upp, sem við gerðum ekki. Vegna þess að vatnið flæddi inn í vasa sumra og ekki allra jókst ójöfnuðurinn mikið.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK