Hópmálsókn gegn Volkswagen

Bílum staflað í hillur í bílageymslu Volkswagen í Wolfsburg. Hópmál …
Bílum staflað í hillur í bílageymslu Volkswagen í Wolfsburg. Hópmál var höfðað gegn fyrirtækinu í vikunni út af útblásturssvindli og er búist við að tugir þúsunda manna taki þátt í því. VW kveðst enga skaðabótatskyldu bera. AFP
Neytendasamtök í Þýskalandi lögðu á fimmtudag fram hópmálsókn gegn bílaframleiðandanum Volkswagen vegna tjóns, sem kaupendur dísilbíla framleiðandans urðu fyrir vegna svindls í útblástursmælingum.

Í yfirlýsingu frá landssambandi þýskra neytendasamtaka, VZBV, sagði að stefnan hefði verið send yfirhéraðsdómi í Braunschweig í samstarfi við félag þýskra bifreiðaeigenda, ADAC, aðfaranótt fimmtudagsins. Braunschweig er skammt frá höfuðstöðvum Volkswagen í Wolfsburg í Neðra-Saxlandi.

Í málshöfðuninni er Volkswagen, sem framleiðir átta tegundir bíla, gefið að sök að hafa vísvitandi skaðað viðskiptavini sína með því að láta líta út fyrir að bílar þeirra menguðu minna en þeir gerðu í raun. Á vefsíðu VZBV kemur fram að málið nái til bíla af gerðunum Volkswagen, Audi, Skoda og Seat með dísilvélum af gerðinni EA189. Búnaði til að skekkja útblástursmælingar var komið fyrir í slíkum vélum.

„Þessi dagur mun lifa í minningu Volkswagen sem stundin þegar silkihönskum stjórnmálamanna var skipt út fyrir boxhanska talsmanna neytenda,“ sagði Klaus Müller, forvígismaður VZBV, í samtali við þýsku fréttaveituna DPA. Hann sagði að markmiðið væri að kaupendur fengju kaupverð bílanna endurgreitt.

Þetta er fyrsta hópmálsóknin í Þýskalandi og er hún gerð í krafti laga, sem sérstaklega voru sett til að eigendur dísilbíla frá Volkswagen gætu leitað réttar síns. Lögin tóku gildi 1. nóvember og var meðferð þeirra flýtt til að þau tækju gildi áður en rétturinn til að sækja skaðabætur til Volkswagen fyrntist.

Katherina Barley, dómsmálaráðherra Þýskalands, sagði að talið væri að tvær milljónir bifreiðaeigenda gætu notið góðs af hinum nýju lögum.

Í upphafi er málið þó aðeins höfðað fyrir hönd 10 Volkswagen-eigenda. Nú er það dómstólsins að skera úr um hvort málið sé tækt og er búist við að niðurstaða liggi fyrir innan tveggja vikna. Á heimasíðum samtakanna, sem standa að málsókninni, kemur fram að þá muni þeir, sem hafi keypt bíla með EA189-vélinni eftir 2008, geta skráð sig sér að kostnaðarlausu.

Ralf Stoll, sem hefur yfirumsjón með málsókninni, kveðst eiga von á að tugir þúsunda manna muni skrá sig.

Þegar hafa verið höfðuð 26 þúsund mál á hendur Volkswagen samkvæmt upplýsingum frá fyrirtækinu, 7400 dómar hafi fallið og í langflestum tilvikum hafi málshöfðandi tapað. Meira er ekki gefið upp. 

Nánari umfjöllun er að finna í sunnudagsblaði Morgunblaðsins. 

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK