Milljarða tap af flugrekstri

Árið í ár hefur ekki verið auðvelt í rekstri flugfélaga ...
Árið í ár hefur ekki verið auðvelt í rekstri flugfélaga á Íslandi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Veruleg umskipti hafa orðið í rekstri flugfélaganna Icelandair og WOW air á milli ára en samkvæmt uppgjöri þeirra fyrir fyrstu níu mánuði ársins nam hagnaður Icelandair 221 milljón króna (1,8 milljón Bandaríkjadala) en tap WOW 4,1 milljarður króna (33,6 milljónir dala).

Á sama tíma­bili í fyrra nam hagn­aður Icelandair 77,2 millj­ónum dala, sem svarar til 9,5 milljörðum króna miðað við gengi Bandaríkjadals í dag.

Tap WOW air nam 13,5 milljónum Bandaríkjadala á fyrstu níu mánuðum ársins í fyrra eða 1,7 milljörðum króna miðað við gengið í dag. 

Afkoma Icelandair hefur versnað um 75,4 milljónir dala á milli ára en það samsvarar 9,3 milljörðum króna, og afkoma WOW air versnar um 20,1 milljón dala, sem svarar til 2,5 milljörðum dala.

Uppgjör WOW fyrir fyrstu níu mánuði ársins var birt í gær.

Hluthafafundur Icelandair Group samþykkti í gær heimild til stjórnar félagsins um að hækka hlutafé Icelandair um allt að 625 milljónir króna að nafnverði. Eins og segir í tilkynningu frá félaginu er markmið hlutafjárhækkunarinnar það að styrkja fjárhagslega getu þess til vaxtar.

Einnig var á dagskrá fundarins að ræða kaup Icelandair á WOW, en þeir dagskrárliðir voru felldir niður eftir að hætt var við þau viðskipti í fyrradag.

Verður hlutafjárútboðið tvískipt, lokað og almennt. Það lokaða verður haldið eigi síðar en 14. desember nk. en almenna útboðið í mars á næsta ári.

Bréf Icelandair Group lækkuðu um 8,63% í ríflega 550 milljóna króna viðskiptum í kauphöllinni í gær. Hlutabréf félagsins lækkuðu um 25,23% í vikunni en hafa lækkað um 44,09% undanfarið ár. Lokaverð hlutabréfa Icelandair í gær var 8,89 krónur en undanfarna 12 mánuði hefur verð þeirra farið hæst í 16,69 krónur en lægst 6,43 krónur á hlut.

mbl.is

Myntbreyta

  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  CHF
  JPY

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir