Græðgi, spilling, okur og hrun

Þá mælist traust almennings til bankakerfisins heldur lágt og eru ...
Þá mælist traust almennings til bankakerfisins heldur lágt og eru helstu ástæður lítils traust að það sé dýrt og að hrunið sé enn ferskt í minni landsmanna. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Fjármálakerfið er samfélagslega mikilvægt, en það er útbreitt vandamál hversu mikið vantraust ríkir í garð kerfisins. Þetta var meðal þess sem kom fram í kynningu hvítbókar um fjármálakerfið í dag. Einnig kom fram að yfir helmingur veit ekki hvert á að leita til þess að leysa úr ágreiningi eða kvarta vegna banka.

Könnun sem var gerð af Gallup í október fyrir starfshópinn sem stóð að hvítbókinni, um viðhorf landsmanna til bankakerfisins, sýnir að algengustu orð sem almenningi dettur fyrst í hug til að lýsa bankakerfinu á Íslandi eru meðal annars græðgi, spilling, okur og hrun.

Þegar litið er til þeirra orða sem svarendum könnunarinnar dettur í hug þegar á að lýsa bankakerfi framtíðarinnar blasir við önnur sýn. Þá eru nefnd orðin sanngirni, traust, heiðarleiki, öryggi og einnig eru nefndir lægri vextir.

Þá mælist traust almennings til bankakerfisins heldur lágt og eru helstu ástæður lítils traust að það sé dýrt og að hrunið sé enn ferskt í minni landsmanna. Segist almenningur vilja fyrst og fremst betri kjör eða lægri vexti, minni bónusa og ofurlaun, ásamt auknu gagnsæi.

Á þessum grunni telur starfshópurinn mikilvægt að stjórnvöld vinni markvisst að því að fjármálakerfið verði stöðugt, hagkvæmt og veiti góða þjónustu. Hann hefur lagt til leiðir sem hópurinn telur líklegar til þess að auka hagkvæmni og samkeppni.

Neytendur í óvissu

Meginstoðir umbóta eigi að vera gott regluverk og öflugt eftirlit, aukin hagkvæmni í rekstri sem gerir fjármálakerfinu að kleift að þjóna heimilum og fyrirtækjum á skilvirkan hátt og að liggi fyrir traust eignarhald á fjármálafyrirtækjum.

Starfshópurinn lét einnig kanna hvert fólk myndi leita ef það sem viðskiptavinur banka myndi lenda í ágreiningi við bankann eða vilja kvarta vegna hans. 62% þeirra sem svöruðu sögðust ekki vita hvert þau myndu leita.

Þá sögðust 7% leita til lögfræðings, 4% til Fjármálaeftirlitsins, 3% til Neytendasamtakanna, 1% til umboðsmanns skuldara, 1% til Neytendastofu og 22% annað, sem var ótilgreint.

Starfshópurinn telur að hrinda verði í framkvæmd úrbótum sem miða að því að tryggja að neytendum verði ljóst hvert þeir eiga að leita. Jafnframt að neytendur þurfi aðeins að leita á einn stað til þess að koma skilaboðum um fjármálafyrirtæki til hins opinbera.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Myntbreyta

  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  CHF
  JPY

Erlendar viðskiptafréttir