Aurum Holding-málið ekki fyrir Hæstarétt

Hæstiréttur mun ekki taka Aurum Holding málið fyrir.
Hæstiréttur mun ekki taka Aurum Holding málið fyrir. mbl.is/Ófeigur

Hæstiréttur hafnaði í gær beiðni ríkissaksóknara um að dómstóllinn taki Aurum Holding-málið svo nefnda fyrir. Málið hefur í fjórgang verið tekið fyrir af dómstólum frá því það hófst fyrst fyrir sex árum síðan.

Lands­rétt­ur sýknaði í október alla þrjá sak­born­ing­ana mál­inu, þá Lár­us Weld­ing, fyrr­ver­andi for­stjóra Glitn­is, Magnús Arn­ar Arn­gríms­son, fyrr­ver­andi fram­kvæmda­stjóri fyr­ir­tækja­sviðs bank­ans, og Jón Ásgeir, sem var aðal­eig­andi bank­ans í gegn­um eign­ar­halds­fé­lagið FL Group.

Héraðsdóm­ur Reykja­vík­ur hafði áður dæmt Lár­us í eins árs fang­elsi, Magnús í tveggja ára fang­elsi en sýknað Jón Ásgeir.

Saksóknari, sem áfrýjaði málinu sagði í málskotsbeiðni sinni til Hæstaréttar að það væri sitt mat að  dómur Landsréttar væri efnislega rangur.  Það hefði því „verulega almenna þýðingu“ að Hæstiréttur endurskoðaði beitingu Landsréttar á 249. grein hegningarlaga, þar sem hún væri ekki í samræmi við niðurstöður Hæstaréttar í svipuðum málum. 

Hæstiréttur féllst ekki á þessi rök og neitaði beiðni saksóknara um að taka málið fyrir.

Þá var það mat Hæstaréttar að ekki væri heimild í lögum til að verða við kröfu tveggja sakborninganna um að verjendur þeirra fengju þóknun fyrir að gæta hagsmuna sinna vegna málskotsbeiðninnar. 

mbl.is

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir