Feginn að komið sé að endimörkum

Gestur Jónsson, lögmaður Jóns Ásgeirs.
Gestur Jónsson, lögmaður Jóns Ásgeirs. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Þetta er í þriðja skipti sem fjölskipaður dómur hefur sýknað Jón í þessu máli. Ég vona að það sé nú endir þessa alls,“ segir Gestur Jónsson, lögmaður Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, um sýknudóminn í Aurum Holding-málinu fyrr í dag.

Landsréttur sýknaði alla þrjá sakborningana málinu, þá Lárus Welding, fyrrverandi forstjóra Glitnis, Magnús Arnar Arngrímsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri fyrirtækjasviðs bankans, og Jón Ásgeir, sem var aðaleigandi bankans í gegnum eignarhaldsfélagið FL Group. Héraðsdómur Reykjavíkur hafði áður dæmt Lárus í eins árs fangelsi, Magnús í tveggja ára fangelsi en sýknað Jón Ásgeir.

„Ég er sannfærður um réttmæti þess sem var forsendan í dómnum um að stjórnendum bankans hafi ekkert gengið annað til í sínum störfum heldur en að tryggja hagsmuni bankans,“ segir Gestur.

Jón Ásgeir Jóhannesson.
Jón Ásgeir Jóhannesson. mbl.is/Kristinn Magnússon

Samferða Jóni Ásgeiri í 16 ár

Aðspurður segir hann að dómurinn í dag hafi ekki komið sér á óvart, enda telji hann að niðurstaðan hafi verið rétt, en tekur fram að hann sé feginn að komið sé að þessum endimörkum. „Ég hef nú verið samferða Jóni Ásgeiri í lífinu í 16 ár og 2 mánuði og ég vona að samvera okkar í framtíðinni byggist á öðru en því að ég sé að verja hann fyrir einhverjum ásökunum.“

Hvað áfrýjun í málinu til Hæstaréttar varðar þarf saksóknari að sækja um áfrýjunarleyfi. Gestur telur það langsótt, að minnsta kosti gagnvart Jóni Ásgeiri, vegna þess að frumverknaðurinn hafi verið talinn lögmætur og þar af leiðandi hafi engin umfjöllun verið í dómi Landsréttar um þátt Jóns Ásgeirs í málinu.

Ólafur Þór Hauksson héraðssaksóknari.
Ólafur Þór Hauksson héraðssaksóknari. mbl.is/Ómar Óskarsson

Getur ekki tjá sig um dóminn

Ólafur Þór Hauksson héraðssaksóknari segist í samtali við mbl.is ekki hafa lesið dóminn og getur því ekki tjáð sig um hann að svo stöddu. Hann bendir á að ríkissaksóknari fari yfir alla dóma Landsréttar með það í huga hvort sótt verði um áfrýjunarleyfi en nefnir að niðurstaðan í dag hafi „ekki verið það upplegg sem ákæruvaldið fór fram með“.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert