Kyrrsetning étur upp innspýtingu

Kyrrsett Boeing 737 Max 8-farþegavél Norwegian Air Shuttle.
Kyrrsett Boeing 737 Max 8-farþegavél Norwegian Air Shuttle. AFP

Norska flugfélaginu Norwegian Air hefur verið refsað harðlega á hlutabréfamörkuðum undanfarna daga.

Samtals hafa bréf félagsins lækkað um 16% frá því að Boeing 737 Max 8-flugvél Ethiopian Airlines fórst í Eþíópíu skömmu eftir flugtak 10. mars. Norwegian starfrækti 18 slíkar þotur fyrir slysið en þær hafa sem kunnugt er verið kyrrsettar og óvíst er um hversu lengi kyrrsetningin mun vara.

Flugvélafloti Norwegian samanstendur af 160 vélum og eru því Max-vélar 11,25% flotans.

Markaðsgreinendur og fjárfestar hafa áhyggjur af stöðu félagsins sem hefur nú þegar krafist skaðabóta frá Boeing vegna kyrrsetningarinnar.

Verulega skuldsett

„Norwegian er eflaust með eitt hæsta skuldsetningarhlutfall í heimi. Svona hlutir eru félaginu erfiðir,“ segir Preben Rasch-Olsen, markaðsgreinandi hjá sænska bankanum Carnegie, í frétt Financial Times.

Hlutabréf félagsins hafa fallið um allt að 70% frá hæsta punkti síðasta árs en félagið lenti í vandræðum með Boeing Dreamliner-vélarnar sem voru kyrrsettar á síðasta ári og þá varð hugsanlegt kauptilboð British Airways í fyrirtækið aldrei að veruleika.

Bjørn Kjos er forstjóri Norwegian Air Shuttle. Áhöld eru um ...
Bjørn Kjos er forstjóri Norwegian Air Shuttle. Áhöld eru um hvort hann sé rétti maðurinn til þess að leiða Norwegian á réttan veg, að mati Andrew Lobbenberg, markaðsgreinanda HSBC. AFP

Kyrrsetning 737 Max-vélanna hefði í raun getað verið enn verri fyrir Norwegian en félagið lauk 42 milljarða íslenskra króna hlutafjáraukningu síðasta föstudag.

Engir varasjóðir

„Að mínu mati hefur félagið enga varasjóði til þess að mæta óvæntum áföllum. Það er ekki góð staða fyrir flugfélög að vera í því það fer alltaf eitthvað úrskeiðis. Viðskiptamódel þeirra er bilað og félagið er ekki að gera nóg til þess að laga það,“ segir Daniel Roeska, markaðsgreinandi hjá Bernstein.

Andrew Lobbenberg, markaðsgreinandi hjá HSBC, segir stöðu félagsins ekki bjarta.

„Tapið sem fylgir Max-vandamálunum mun éta fljótt upp hlutafjárinnspýtinguna. Sú arðsemi sem hafa má af félaginu er mjög lítil,“ sagði hann.

Boeing 737 MAX 8.
Boeing 737 MAX 8. AFP

Lobbenberg segir aftur á móti að kyrrsetningin gæti veitt félaginu ákveðin tækifæri þar sem það gæti nú hækkað verðið á eldri Boeing-vélunum og Airbus-vélunum sem það hefur verið að reyna að selja, auk þess sem möguleiki er á að lækka fjárfestingaútgjöld félagsins í ljósi þess að afhending á 92 737 Max-vélum frestast.

Verður dýrt ef þetta dregst fram yfir páska

Rasch-Olsen taldi einnig að tímasetningin á kyrrsetningunni væri ekki svo slæm þar sem marsmánuður væri alla jafna einn af veikari mánuðum fyrirtækisins. En ef þetta teygist fram yfir páska og inn í júní fer þetta að vera verulega dýrt,“ sagði Rasch-Olsen.

Norwegian er þriðja stærsta lággjaldaflugfélag Evrópu, á eftir Ryanair og Easyjet, og breytti um stefnu fyrr á þessu ári þar sem horfa átti frá þeim mikla og hraða vexti sem einkennt hefur félagið á undanförnum árum. Var áhersla fremur sett á kostnaðarlækkanir og fækkun í flugvélaflota félagsins.

Félagið hefur nú þegar tilkynnt að það mun hætta ferðum sínum til Palma á Mallorca sem mun hafa áhrif á 100 flugmenn og flugáhafnir. En í stað þess að segja fólkinu upp kaus Norwegian að víkja þeim tímabundið úr starfi og setja í árslangt launalaust leyfi, að því er fram kemur í Financial Times.

Af þessu tilefni vísaði Norwegian sérstaklega til kyrrsetningar 737 Max-vélanna sem hefur þrengt valkosti okkar enn frekar“ að því er sagði í tilkynningu félagsins sem vísaði enn fremur einnig til alvarlegrar stöðu á fjárhag félagsins.

Frétt Financial Times

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK