Gistinóttum fækkar í Airbnb

Gistinóttum fjölgaði bæði á gistiheimilum og hótelum hér á landi …
Gistinóttum fjölgaði bæði á gistiheimilum og hótelum hér á landi í fyrra en fækkaði á sama tíma í Airbnb, eða um 3,3%. mbl.is/Golli

Gistinóttum á hótelum og gistiheimilum fjölgaði um 5,1% á síðasta ári. Á sama tíma fækkaði gistinóttum í Airbnb um 3,3%.

Í nýrri Hagsjá Landsbankans kemur fram að fækkun gistinátta í Airbnb má einungis rekja til fækkunar gistinátta á höfuðborgarsvæðinu og Suðurnesjum. Fækkunin nam 9,4% á höfuðborgarsvæðinu og 11,4% á Suðurnesjum en gistinóttum fjölgaði á öðrum svæðum landsins. Mesta hlutfallslega fjölgunin var á Vesturlandi, 18,6% en einnig var mikil fjölgun á Norðurlandi vestra (15,6%) og Austurlandi (12,3%).

Aukin skilyrði og eftirlit virðast hafa dregið úr áhuga einstaklinga til þess að standa í Airbnb-leigustarfsemi, að því er segir í Hagsjánni. Á síðustu misserum hefur eftirlit með starfseminni verið eflt og tekið fastar á því að sköttum sé skilað af tekjum sem innheimtast af starfseminni. Þá hafa verið sett þrengri skilyrði fyrir Airbnb-starfsemi og felast þau meðal annars í því að ekki megi leigja út fasteignir til meira en 90 daga á ári.

Gistinóttum fjölgaði meira á gistiheimilum en hótelum

Gistinóttum fjölgaði bæði á gistiheimilum og hótelum hér á landi í fyrra. Fjölgunin á gistiheimilum nam 6,5% og var litlu minni hjá hótelum eða 5,1%. Fjölgunin var frekar almenn eftir landsvæðum en hvað gistiheimilin varðar var eitt svæði þar sem mældist fækkun gistinátta í fyrra, en á Suðurnesjum fækkaði gistinóttum um 5,6%. Það má þó einungis rekja til mikillar fækkunar gistinátta Íslendinga en hún nam 46,7% milli ára.

Önnur athyglisverð þróun á gistinóttum Íslendinga er að þeim fjölgaði mikið á höfuðborgarsvæðinu á móti eða um 59%. „Þarna vaknar spurning hvort að um sé að ræða gistinætur Íslendinga utan höfuðborgarsvæðisins sem hyggi á utanlandsferð og hluti af henni sé að gista einhverjar nætur á Suðvesturhorninu. Þessir Íslendingar hafa því hugsanlega verið að færa gistingu sína af Suðurnesjum yfir á höfuðborgarsvæðið,“ segir í Hagsjá Landsbankans um ferðaþjónustu.

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK