Spá frekari stýrivaxtalækkun

Greiningardeild Arion banka spáir því að peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands muni lækka meginvexti bankans enn frekar í næstu viku eða um 0,25 prósentur. Fyrir mánuði lækkaði bankinn vexti sína um hálft prósentustig. Þetta kemur fram í markaðspunktum greiningardeildar: Dúfnahólar 25: Spáum 25 punkta vaxtalækkun.

„Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands mun funda í byrjun næstu viku og ákvarða meginvexti bankans. Það er aðeins mánuður síðan nefndin ákvað að lækka vexti um 50 punkta í kjölfar breyttra efnahagshorfa. Við fyrstu sýn hefur lítið breyst síðan þá, ferðamönnum er enn að fækka, krónan er enn að veikjast og það er enn útlit fyrir efnahagssamdrátt í ár. Frá síðustu vaxtaákvörðun hefur taumhald peningastefnunnar hins vegar þést og það mun hvetja nefndina til að halda áfram á braut vaxtalækkunar. Þá hafa líkurnar á meiri samdrætti en grunnspá Seðlabankans gerir ráð fyrir aukist. Þéttara taumhald samhliða efnahagsslaka er kokteill sem nefndin vill ekki bjóða upp á og spáum við því að nefndin sammælist um 25 punkta vaxtalækkun og að frekara svigrúm sé til staðar.

Við síðustu vaxtaákvörðun ríkti sátt og samlyndi meðal nefndarmanna og kusu allir með 50 punkta vaxtalækkun. Þá stóð valið á milli 25 og 50 punkta vaxtalækkunar og teljum við að sömu valkostir standi til boða í þetta sinn. Eflaust mun nefndin ræða nýja ferðamannaspá Isavia, lækkandi verðbólguvæntingar, þéttara taumhald og dökkar efnahagshorfur í sömu andrá og 50 punkta lækkun, en að okkar mati mun smærra skref verða fyrir valinu að þessu sinni.

Til stuðnings smærri skrefa má nefna að kortaveltutölur maímánaðar reyndust furðu sterkar og benda til þess að hver ferðamaður sé að eyða nokkuð meira í sinni eigin mynt en áður, sem að öðru óbreyttu dregur úr áhrifum fækkunar ferðamanna á þjóðarbúskapinn. Auk þess hefur verðbólgan aukist milli funda og útlit er fyrir að svo verði áfram næstu mánuði, en hún stendur nú í 3,6% sem er nokkuð yfir markmiði Seðlabankans. Nefndin mun því eflaust vilja bíða og sjá hvernig ferðaþjónustunni reiðir af og hvort verðbólgan verði til friðs, áður en gripið er til annarrar 50 punkta vaxtalækkunar. Þá virðast tölur um verðbréfafjárfestingu ekki gefa til kynna að erlendir fjárfestar séu að stökkva á vexti í krónum um þessar mundir þó svo þeir virðist spenntir fyrir evruútgáfum ríkisins,“ segir í markaðspunktum greiningardeildar Arion banka.

Samhliða síðustu vaxtaákvörðun birti Seðlabankinn nýja þjóðhags- og verðbólguspá. Spáð er 0,4% samdrætti í ár sem rekja má til erfiðleika stærstu útflutningsgreina þjóðarbúsins. Spáin byggir á 10,5% fækkun erlendra ferðamanna, sem er nokkuð minni fækkun en okkar spá (16%), sem og nýjasta spá Isavia (16,7%), gera ráð fyrir. Seðlabankinn birti hins vegar einnig fráviksspá sem byggir á 15% fækkun í komum ferðamanna í ár og hljóðar hún upp á 1,2% efnahagssamdrátt. Í ljósi þess að það sem af er ári hefur ferðamönnum nú þegar fækkað um 11,2% og það aðeins með tveimur mánuðum án WOW air verður spá upp á 10,5% að teljast býsna bjartsýn. Gatið sem WOW air skildi eftir sig er enn þá að mestu leyti til staðar, stór erlend flugfélög hafa dregið úr flugframboði sínu til landsins í haust og enn er óvíst hvenær Max vélar Icelandair hefja sig til flugs. Þar af leiðandi teljum við að fráviksspáin sé líklegri niðurstaða eins og sakir standa. 

Þar kemur fram að hætta sé á að samdrátturinn verði meiri og vari lengur en grunnspá Seðlabankans gerir ráð fyrir. „Farþegaspá Isavia ætti að öðru óbreyttu að ýta undir þessar áhyggjur nefndarinnar og opna þannig enn frekar á vaxtalækkanir. Á móti vegur að hver ferðamaður er að skila meiri tekjum í kassa þjóðarbúsins en áður skv. nýjum kortaveltutölum, sem mildar höggið á hagkerfið að öðru óbreyttu og dregur úr vaxtalækkunarflýtinum,“ segir greiningardeildin í spá sinni.

Rit greiningardeildar Arion  banka

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK