„Það styttist í þetta“

Aðspurður hvort til standi að opna söluskrifstofu í Reykjavík segir …
Aðspurður hvort til standi að opna söluskrifstofu í Reykjavík segir Gunnar að það hljóti að verða hugleitt. mbl.is/​Hari

WOW air hefur tekið á leigu húsnæði í Washington í Bandaríkjunum þar sem til stendur að söluskrifstofa félagsins verði opnuð skömmu áður en fyrsta flugferð félagsins verður farin. Reiknað er með að sú ferð verði farin innan nokkurra vikna, fremur en mánaða.

Þetta staðfestir Gunnar Steinn Pálsson, almannatengill félagsins, í samtali við mbl.is, en Túristi greindi fyrst frá.

Um er að ræða húsnæði í hverfi sem kallast Foggy Bottom í miðborg Washington. „Það stendur til að opna þarna söluskrifstofu, einhverjum dögum alla vega áður en við förum í loftið með fyrsta flug,“ segir Gunnar. „Við mælum tímann fram að fyrsta flugi vonandi frekar í vikum heldur en mánuðum. Það styttist í þetta.“

Taka tíma til að rýna ný tækifæri

Aðspurður hvort til standi að opna söluskrifstofu í Reykjavík segir Gunnar að það hljóti að verða hugleitt. Að öðru leyti vilji forsvarsfólk WOW air ekki segja margt um einstök atriði í undirbúningsferlinu. 

„Það að við erum ekki komin í loftið nú þegar eins og við ætluðum okkur í haust, það eru aðallega tvær ástæður fyrir því,“ segir Gunnar. „Það er ýmislegt í þessu ferli við að endurreisa fallið flugfélag sem hefur reynst vera ívið flóknara heldur en við áttum von á, og svo hins vegar hafa breyst mikið aðstæður í samkeppnisumhverfinu síðustu vikur og mánuði.“

„Það eru mörg flugfélög, lágfargjaldaflugfélög sérstaklega, sem hafa verið annaðhvort að draga úr framboði sínu eða jafnvel leggja upp laupana. Það hefur skapað ný tækifæri sem menn hafa ákveðið að staldra við og rýna í.“

„Wow air and cafe“

Athygli hefur vakið að meint verðandi söluskrifstofa WOW air er merkt „wow air and cafe“. Gunnar segir það skýrast af því að það hugmyndin sé að hafa þarna bæði söluskrifstofu og aðstöðu þar sem fólk geti sest niður, fengið sér kaffisopa og rýnt í möguleikana. „Það verður að minnsta kosti heitt á könnunni þarna allan daginn.“

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK