„Fréttir í gær hafa aðeins kveikt í mönnum“

Runólfur Ólafsson, framkvæmdastjóri FÍB.
Runólfur Ólafsson, framkvæmdastjóri FÍB. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Verð á bensíni hefur lækkað hér á landi í gær og í dag í kjölfarið á lækkunum á heimsmarkaði með olíu. Þannig hefur N1 lækkað verð um 5 krónur af listaverði og aðrar stöðvar um svipaða tölu. Þrátt fyrir það segir Runólfur Ólafsson, framkvæmdastjóri Félags íslenskra bifreiðaeigenda, að álagning olíufélaganna sé um 5 krónum hærri á lítra en meðalálagning síðustu 10 ára gefi tilefni til.

Verð á hráolíu hefur lækkað um 23% í dag, en hún kemur til eftir að viðræður Samtaka olíuframleiðsluríkja (OPEC) og Rússa um þak á framleiðslu olíu runnu út í sandinn á föstudaginn. Blik­ur eru á lofti því í ofanálag hef­ur kór­ónu­veir­an sem breiðist út um heim­inn áhrif á spurn eft­ir olíu, sem fer minnk­andi. 

„Það er jákvætt ef þau eru að bregðast við“

Runólfur segir að íslensk olíufélög hafi gripið til lækkana í gær og í dag eftir mikla lækkun á heimsmarkaði undanfarna daga. „Fréttir í gær hafa aðeins kveikt í mönnum,“ segir hann og bætir við að viðbrögðin séu brattari en hafi komið í ljós í síðustu viku þegar verð lækkaði einnig vegna útbreiðslu kórónuveirunnar. „Það er jákvætt ef þau eru að bregðast við,“ segir hann um olíufélögin.

Segir hann að með lækkunum dagsins í dag og í gær virðist olíufélögin ná að halda í við lækkun á heimsmarkaði, en hins vegar hafi fyrri lækkanir lítið skilað sér. Því sé staðan sú í dag að álagning sé um 5 krónum yfir meðalálagningu síðustu 10 ára, þegar tekið sé tillit til hækkunar vísitölu neysluverðs. Þá vísar hann til þess að útsöluverð það sem af er mars sé ekki nema 1 krónu lægra en það hafi verið í febrúar. Það sé umtalsvert minni lækkun en í nágrannalöndum okkar. „Við hefðum átt von á meiri lækkun,“ segir hann.

Segir álagningu fjær Costco hafa hækkað

Með listaverði er átt við algengasta verð olíufyrirtækjanna, en undanfarin ár hefur hins vegar annað verð verið í gildi á því sem Runólfur kallar „stór-Garðabæjarsvæðið“ og á þar við eldsneytisstöðvar næst Costco í Garðabæ. Er munurinn á bensínverði milli listaverðseldsneytisstöðva og lágvörugjaldaeldsneytisstöðva um 30 krónur á lítra í dag. Runólfur segir að greina megi að undanfarin ár hafi olíufélögin hækkað álagningu á öðrum stöðvum á móti þessari lækkun á stöðvum nálægt Costco. Segist hann furða sig á þessu í ljósi þess að allir greiði nú þegar svokallað flutningsjöfnunargjald sem leggst á allt eldsneyti. „Verðmunurinn er óeðlilegur,“ segir hann og bætir við „Út af fákeppninni eru þeir að láta aðrar stöðvar halda þessu verði uppi. Það er ekki hægt að réttlæta verðlagningu nálægt stöðvum Costco ef það hækkar álagningu á aðra í staðinn.“

Álagning á bensín hefur hækkað hér á landi undanfarið og …
Álagning á bensín hefur hækkað hér á landi undanfarið og er nú 5 krónum hærri en meðaltal síðustu 10 ára. mbl.is/Golli

Listaverð niður í 220-225 og bíður enn eftir lækkun á lægsta verði

Segir Runólfur að þegar horft sé til þessara atriða hefði hann viljað sjá bensínverð fara niður í um 220-225 krónur á lítra á listaverði.

Á lágvöruverðseldsneytisstöðvunum er verðið hins vegar rétt fyrir ofan 200 krónur á lítra. Runólfur segir að þrátt fyrir lækkunina á heimsmarkaði hafi verð þessara stöðva ekkert lækkað og svipaða sögu sé að segja frá Costco. Þar hafi verðið reyndar lækkað örlítið um miðja síðustu viku, en ekkert eftir lækkunina á föstudaginn og í morgun. Stendur lítraverð Costco nú í 197,9 krónum á lítra og hjá Orkunni, Atlantsolíu og ÓB í nágrenni Costco er verðið um 201 króna á lítra. Segir hann að ef félögin taki heimsmarkaðsverðslækkunina inn í verðið hjá sér ætti það að leiða til þess að verðið á lágvörugjaldastöðvunum fari niður fyrir 200 krónur innan skamms.

Runólfur tekur fram að þótt lækkun á markaði hafi verið 23% eigi ekki að búast við viðlíka lækkun á útsöluverði hér, en í tilfelli listaverðsins væri um að ræða allt að 60 króna lækkun. Bendir Runólfur á að 55% útsöluverðs fari í skatta og gjöld og stór hluti þeirra sé lítragjald og því hafi verðlækkun á heimsmarkaði engin áhrif þar á.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK