Kostnaðarsamara að gera ekkert

Erna Björg Sverrisdóttir, aðalhagfræðingur Arion banka.
Erna Björg Sverrisdóttir, aðalhagfræðingur Arion banka. mbl.is/Hari

Ljóst er að stjórnvöld eru tilbúin að stíga stór skref til að verja atvinnulífið í kórónuveirufaraldrinum með kostnaðarsömum aðgerðum. Enn kostnaðarsamara væri þó ef ekkert yrði gert.

Þetta segir Erna Björg Sverrisdóttir, aðalhagfræðingur Arion banka.

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra sagði í morgun að gera megi ráð fyrir að halli rík­is­sjóðs muni nema 100 millj­örðum króna á ár­inu vegna kór­ónu­veirufar­ald­urs­ins. 

Erna segir að án þess að vita nákvæmlega hvað aðgerðarpakki stjórnvalda vegna veirunni feli í sér sé nokkuð ljóst að mikið verði gert til að verja atvinnulíf hér á landi.

Aðgerðirnar munu leiða til þess að tekjur ríkissjóðs dragast tímabundið saman, til dæmis vegna frestunar og niðurfellingar á opinberum gjöldum, en á sama tíma munu útgjöld aukast. Einn stærsti útgjaldaliðurinn verður væntanlega að draga úr atvinnuleysi, að hvetja fyrirtæki frekar til að minnka starfshlutfall starfsmanna sinna og ríkissjóður greiðir þá þeim starfsmönnum atvinnuleysisbætur að hluta,“ segir Erna.

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra sagði í morgun að gera mætti ráð …
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra sagði í morgun að gera mætti ráð fyrir 100 milljóna halla á ríkissjóði á árinu vegna kórónuveirunnar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hún bætir við að boðað sé markaðsátak til að kynna íslenska ferðaþjónustu þegar það versta er yfirstaðið.

Spurð hvað það taki mörg ár að vinna slíkan halla upp segir Erna að það ætti ekki að horfa til einhvers árafjölda í því samhengi. Mun kostnaðarsamara væri ef ekkert yrði gert.

„Slíkt mundi þýða mun fleiri gjaldþrot og hærra atvinnuleysi en ella, sem bæði skilar sér í tekjutapi og auknum útgjöldum, en einnig yrði bataferli efnahagslífsins mun hægara.“

Íslenska krónan hefur veikst síðustu daga og Erna segir það ekki koma á óvart í ljósi þeirrar óvissu sem stærsta gjaldeyrisskapandi atvinnugreinin stendur frammi fyrir. 

„Hins vegar hefur Seðlabankinn yfir að ráða stórum gjaldeyrisforða sem hægt er að nýta til að jafna óstöðugleika og draga úr óhóflegum sveiflum í genginu. Af orðum fjármálaráðherra og seðlabankastjóra er ætlunin að nýta forðann.“

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK