Atvinnuleysi á eftir að aukast

Fækkun ferðamanna hefur verið landsmönnum erfið en flestir hafa misst …
Fækkun ferðamanna hefur verið landsmönnum erfið en flestir hafa misst sín störf í þeim geira. mbl.is/RAX

Atvinnuleysi á eftir að vera mikið það sem eftir er ársins en í ágúst og september mun fjöldi fólks sem enn fær laun á uppsagnarfresti bætast við fjölda atvinnulausra. Þetta kemur fram í Hagsjá Landsbankans sem birt var í dag en þar er sagt að ekki sé ólíklegt „að tímarnir verði áfram erfiðir“.

Almennt atvinnuleysi mun þannig trúlega aukast nokkuð fram í september þar sem mikið af hópuppsögnum munu koma til framkvæmda síðsumars, einkum í ágúst. 

„Líklegt er að almennt atvinnuleysi fari yfir 8% í ágúst, en atvinnuleysi tengt hlutabótaleiðinni verði þá hverfandi, enda mun sú leið renna sitt skeið á enda í lok ágúst“, segir í Hagsjánni. 

Spár VMST mun lægri en fyrri spá bankans

Skráð atvinnuleysi var í júní 9,5% af áætluðum fjölda fólks á vinnumarkaði í júlí, samkvæmt tölum Vinnumálastofnunar. Það hafði þá minnkað úr 13% frá því í maí. Um 23 þúsund manns voru á atvinnuleysisskrá, þar af um 16.200 atvinnulausir og um 6.700 í minnkuðu starfshlutfalli.

„Minnkun atvinnuleysis sem tengist hlutabótaleið er meginástæða breytingarinnar, en það lækkaði úr 5,6% í 2,1% milli mánaða. Almenna atvinnuleysið var hins vegar svipað, 7,4% í maí og 7,5% í júní.“

Atvinnuleysi hefur þróast með svipuðum hætti og spár gerðu ráð fyrir í vor þegar óvissan vegna kórónuveirunnar var sem mest. Samkvæmt nýjustu spám Vinnumálastofnunar mun atvinnuleysi vera rúmlega 9% í ágúst. Það er mun minna en hagfræðideild Landsbankans hafði áður spáð. 

„Atvinnuleysi tengt hlutabótaleið hefur lækkað hraðar en reiknað var með og var komið niður í 2,1% í júní, samanborið við 5,6% í maí og 10,3% í apríl. Töluverðar breytingar voru gerðar á fyrirkomulagi atvinnuleysisbóta eftir að veirufaraldurinn hófst. Fyrst gafst möguleiki á hlutabótum sem varð til þess að ásókn í það kerfi varð verulega meiri en reiknað var með. Seinna gáfu stjórnvöld fyrirtækjum möguleika á greiðslu hluta launa í uppsagnarfresti og fór þá atvinnulausum í hlutabótaleið að fækka verulega.“

Versta staðan á Suðurnesjunum

Staða atvinnumála er, eins og áður, verst á Suðurnesjunum og var 13,2% í júní. 

„Atvinnuleysi heldur áfram að vera næst mest á höfuðborgarsvæðinu, minnkaði úr 13,5% í maí niður í 9,9% í júní. Suðurland er í þriðja sæti með 8,7% atvinnuleysi og því næst Norðurland eystra með 6,6%. Atvinnuleysi er áfram minnst á Norðurlandi vestra, 4,3% í júní“, segir í hagsjánni. 

„Þróunin á næstu vikum og mánuðum, sérstaklega í ferðaþjónustu, mun gefa nokkuð góðar vísbendingar um hvernig atvinnustigið mun þróast áfram. Ferðaþjónustan virðist hafa farið ágætlega af stað og fleiri ferðamenn farnir að koma til landsins. Spurningin er hvort erlendir ferðamenn ná að halda eftirspurn í greininni uppi eftir að sumarleyfum Íslendinga lýkur. Ekki er ólíklegt er að tímarnir verði áfram erfiðir.“

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK