Eimskip: „Þykir málið mjög leitt“

Eimskip biðst afsökunar á að hafa ekki gert ríkari kröfur …
Eimskip biðst afsökunar á að hafa ekki gert ríkari kröfur til kaupenda skipanna. Félagið segist áfram hafa farið að öllum lögum og reglum. Ljósmynd/Eimskip

Eimskipafélag Íslands hefur beðist afsökunar á því ferli sem átti sér stað þegar félagið seldi skipin Laxfoss og Goðafoss til erlenda fyrirtækisins GMS, sem sérhæfir sig í að kaupa skip og selja þau áfram til niðurrifs í Asíu, framhjá reglum sem gilda í Evrópu um förgun skipa og hættulegs úrgangs. Ítrekar félagið þó að það telji sig hafa farið að lögum.

Í tilkynningu sem Eimskip sendi til Kauphallarinnar í morgun segir: „Eimskip þykir málið mjög leitt og lítur það alvarlegum augum enda leggur félagið, stjórnendur þess og starfsfólk mikla áherslu á samfélagslega ábyrgð í störfum sínum og hefur lengi hugað að umhverfismálum í sinni starfsemi.“

Því næst er tekið fram að félagið telji sig hafa farið eftir lögum og reglum í söluferlinu, en að ljóst sé að þar sem skipin hafi verið komin til ára sinna „sinna hefði mátt gera ríkari kröfur gagnvart kaupandanum.“ Nefnir Eimskip að það hefði mátt gera með ákvæði í samningi um söluna þess efnis að ef til þess kæmi að skipin færu í endurvinnslu væri það gert í endurvinnslustöð sem samræmist evrópskum stöðlum. „Eimskip biðst afsökunar á að svo hafi ekki verið gert,“ segir í tilkynningunni.

Eimskip segir í tilkynningunni að þótt meginstarfsemi GMS sé vissulega að kaupa skip til endurvinnslu, þá sé líka hluti rekstrar þeirra að leigja og selja skip til áframhaldandi reksturs. Segist Eimskip hafa talið að svo yrði. „Allt frá sölu skipanna í desember 2019 fram á vor 2020 bentu samskipti félagsins við kaupandann, kröfur hans um búnað og ástand skipanna til þess að skipin yrðu í rekstri lengur en raun bar vitni.“

Vilhelm Þorsteinsson, forstjóri Eimskips.
Vilhelm Þorsteinsson, forstjóri Eimskips. Kristinn Magnússon

Þá tekur Eimskip fram að sala skipanna hafi ekki verið aðgerð til að hagnast á hærra endurvinnsluvirði í öðrum heimshluta. Staðfestir Eimskip að söluverð skipanna hafi verið 3,9 milljónir dala. „Á móti kemur að Eimskip greiddi eigandanum samtals 1,3 milljónir dollara í leigu á leigutímabilinu. Telur félagið mikilvægt að skýra frá því að söluverðið var óverulega hærra en fengist hefði í desember 2019 í endurvinnslustöð í Tyrklandi sem er á evrópskum lista yfir þær stöðvar sem mega endurvinna evrópsk skip.“

Haft er eftir Vilhelm Má Þorsteinssyni, forstjóra Eimskips, að einhugur sé á meðal stjórnar og stjórnenda að draga lærdóm af málinu þannig að slíkt mál komi ekki fyrir aftur.

Málið komst í hámæli í síðustu viku eftir umfjöllun Kveiks um sölu skipanna og niðurrif þeirra á Indlandi, en flutningur skipa sem er yfir 500 brúttótonn til niðurrifs á endurvinnslustöðvum sem ekki eru vottaðar er bannaður hér á landi og víðar í Evrópu.

Hefur Umhverfisstofnun nú kært málið til embættis héraðssaksóknara sem er með málið til meðferðar.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK